sunnudagur, apríl 09, 2006

Audi Q7 og 3 kvikmyndir

Um helgina hef ég brunað um allt á spánýjum Audi Q7 jeppa. 350 hö, einkar vel smurð skepna. Minnir mig á fútúríska sýn úr Metropolis e. Fritz Lang af einhverju framtíðar farartæki sem svífur um loftið á jöfnum, staðföstum hraða. Þessi bíll kostar 8 millur og ég fullvissa lesendur mína um að ég hef ekki efni á þessu apparati, nei, þetta var allt í boði Heklu.
Ég ætla ekki að segja hér hvað ég keyrði hratt á Nesjavallaveginum, en ég get fullyrt að hefðum við verið stoppuð af löggunni þá hefðum við Þórólfur bæði misst ökuréttindi það sem eftir er ævinnar held ég.

Fyrir utan þetta klímax þá fór ég á V for Vendetta á föstudaginn og það fannst mér frábær mynd. Unun að honum V. Einstaklega sjarmerandi og vel máli farin skrípafígúra. Skemmtileg saga líka eins og oftast þegar myndir eru byggðar á vinsælum teiknimyndasögu. V for Vendetta er þriðja frábæra myndin sem ég sé í einni bunu. Hinar tvær voru Mysterious Skin og Squid and the Whale. Báðar alveg frábærar myndir. Sérstaklega fannst mér Mysterious Skin vera góð. Hún var líka hryllileg. Svo hryllileg að senur úr henni eru enn að skjóta upp kollinum í kollinum á mér líkt og ég sé létt þjökuð af OCD. Svona er list. Hvort sem það er orð, rit, myndlist, kvikmyndagerð eða einhver önnur tegund... ef hún er góð, þá suðar hún í vitundinni löngu eftir að maður hefur heyrt/horft á hana og svo breytir hún manni kjölfarið, þó ekki sé nema oggu poggu.