Jákvæðni og kæti en hvar er karladagurinn?
Mikil er lukkan. Mikið er gaman að lifa og anda. Mikið er maður farsæll með þessa tilveru. Það er ekki margt sem hægt er að kvarta yfir. Ekki í dag að minnsta kosti. Nema kannski þessi fóbía Húsasmiðjunnar og BYKO gagnvart þýsku keðjunni Bauhaus sem svo gjarna vill bjóða okkur samskonar þjónustu fyrir minni peninga. Það er lummó.
Og jú kannski. Örlítið kvart: Á morgun er víst alþjóðlegur kvennadagur. Það er hressandi. En hvar er karladagurinn? Ég er nú á því að fyrst konur fá svona marga daga á árinu þá ættu nú karlar í það minnsta að fá einn. Annað er ekki réttlátt. Karlar ættu að fá sinn dag til að öskra og vera berir að ofan. Slást, fara í sjómann og drekka sig fulla. Öskra "Kjöt og brjóst!" á Laugavegi. Keyra flotta bíla og vera hressir. Hlusta svo á "Konu" með Bubba um kvöldið, fá kökk í hálsinn og klára eins og eina Vodka og nokkra pakka af Viceroy.
Ah... og þó. Í gær var reist reðurtákn á Reyðarfirði. Það er alltaf jákvætt. Fleiri reðurtákn. Minna vesen.
|