Einfaldleiki lífisins
Ég kann vel að meta einfaldleika í lífi mínu. Eftir því sem ellin færist yfir mig kann ég betur og betur við eftirlaunalífstíl sem byggist upp á mörgum fyrirfram ákveðnum "mundane" atriðum og lítilli röskun. Mér þætti það til dæmis ágæt hugmynd að keyra einhvern sunnudag út í sveit með það að markmiði að drekka kakóbolla einhversstaðar. Mér er mjög mikið sama þó að síminn minn hringi sjaldan og þannig vil ég helst hafa það. Ef hann hringir í sífellu þá get ég orðið agressív. Ég slekk líka oft á honum, eða set hann á "silent" og gleymi að taka það af.
Ég á erfitt með að fara eins oft á rokktónleika og áður. Samt ætla ég að sjálfssögðu á Laibach og fljótlega á vélsleða, það er að segja þegar snjóar. Hraði, hraði. Samt ekkert með hóp. Hópar eru vesen. Allir vilja taka ákvörðun og það þarf að taka tillit til allra. Mikið vesen. Árshátíðar geta svo verið botninn á þessu. En bara ef maður er maki. Mjög vel skipulagðar árshátíðar sem krefjast ekki gala klæðnaðar geta verið þolanlegar.
Pressuballið er 18 febrúar. Fólk sem vinnur við að skrifa er oft innhverft að upplagi og ekki miklar félagsverur. Nema þegar það er fullt og sumir sem vinna við að skrifa sækja svolítið í hinn svonefnda apasopa. Það er dúllulegt. Ég þarf að gera það upp við mig hvort mig langar að skreppa. Valið er þá eitthvað júróflipp, afmæli Orra eða pressuball. Hmmm... úr vöndu að ráða.
Reyndar verð ég að taka það fram að síðasta sumar fór ég í siglingu niður á með hóp. Það var gaman. Kannski að maður geri þannig aftur næsta. Eða taki hóp með á vélsleða?
|