Áramót og áfengi
Kampavínstappadansinn var ansi góður, skaupið náttúrlega ekkert fyndið frekar en í hin 99 skiptin, fréttaannállinn allt í lagi.
Þetta voru merkileg áramót fyrir mig. Allt öðruvísi en áður þar sem ég sat nánast í sjónvarpsherberginu allt kvöldið og sinnti krílinu mínu. Níræða konan við hlið mér. Við fengum báðar nokkuð mikið út úr því að horfa á náttúrumyndirnar sem komu á eftir ávarpi útvarpsstjóra. Öðruvís mér áður brá!
Áfengi...
Yndæli maðurinn með slaufuna var farinn að kippast allur til og strákurinn með ljóta bindið orðin þreytandi eins og hann verður alltaf þegar hann verður fullur. Vildi endilega fá að káfa á andlitinu á barninu mínu og ég spurði hann hvort hann væri búin að þvo sér um hendurnar "Auðvitað er ég með hreinar hendur!" æpti hann, pissfullur og nánast móðgaður yfir þessari spurningu. Fór svo að halda því fram að barnið fengi asma ef það væri aldrei í nánd við skítugar hendur.
Það er eins og flestir móðgist við þessa spurningu "Ertu með hreinar hendur" og mér finnst það fáránlegt. Fólk er alltaf að skíta út á sér hendurnar. Hversu oft er t.d. stýrið á bílnum þrifið og hversu oft er komið við það?
Mér datt í hug að það gæti verið athyglisvert að gera heimildarmynd um hegðun fólks á fylleríum. Mynda það fyrir og eftir að áfengisáhrifin eru kominn upp í heila. Stundum breytist mesta príðisfólk. Verður ekki bara eins og draugar, heldur bípólar draugar á sveppatrippi. Stendur varla í fæturna og fer að hegða sér dónalega eða vera með öfgafulla tilfinningasemi. Þetta er ekki smart. Ég er mjög sátt við að vera bindindiskona. Fallegt orð líka bin-din-di. Krúttlegt svona. Eins og dindill. Eða yndi.
Sem dindilsbindindskona á ég það aldrei á hættu að missa stjórn á mér og gera eða segja eitthvað svona asnalegt og þurfa að skammast mín fyrir framan annað fólk næsta dag og kyngja skömminni. Jafnvel svo oft að skömmin fer að umbreytast í komplex sem verður ekki losað um nema með því að drekka aftur. Þá er maður kominn í bobba. Vítahringsbobba sem kallast m.a. alkóhólismi =/
Held að það hljóti að vera listform að halda kúlinu undir áhrifum. Ok, höfum það á hreinu að það er náttúrlega fullt að fólki sem kann það, en það eru líka rosalega margir sem kunna það ekki en telja sér samt trú um að allt sé kúl. Blekkingar eru einmitt fylgifiskur þess að djúsa. Stundum kollektívar blekkingar. Allir bara saman að vera blekktir. Einmitt þessvegna gæti verið mjög gaman að gera mynd um fyllerí. Það gæti margt skemmtilegt komið í ljós og jafnvel myndu nokkrar blekktar manneskjur sjá eitthvað nýtt og jafnvel framandi.
Veit um listakonu sem gerði einusinni svona fyllerís gjörning. Hún safnaði vinum sínum saman á litlu kaffihúsi og setti stórar vodkaflöskur á borðin. Við hvert borð sátu 3 manneskjur og skiptu með sér u.þ.b. einum og hálfum vodkalítra. Verkið gekk svo út á það að fólkið átti að drekka flöskuna, án þess að tala saman. Bara þegja og drekka. Horfa á hvort annað þar til það var orðið vel fullt. Ég hefði viljað sjá þetta :)
|