þriðjudagur, desember 28, 2004

Næturkrúttið

Litla yndið í lífi mínu er nýbúið að ákveða það að mamma hennar og pabbi eiga að vaka á nóttunni og halda á henni og kjafta við hana. Sem betur fer erum við í orlofi og snúum þessvegna bara hringnum við án þess að stressa okkur á því. Hún leyfði okkur að sofna klukkan fimm í nótt held ég. Þá vorum við búin að tæma sjónvarpsdagskrána og horfa á eitthvað... tvær myndir og fjóra þætti held ég. Sá einn þátt sem mér leist vel á og hlakka til að horfa aftur á í kvöld. Angels in America. Flottur sá. Hlakka til að horfa á tvöfalt svoleiðis dæmi í kvöld. Minnir mig smá á Six feet under, sem ég held einmitt mikið uppá. Það er eitthvað svo skemmtilegt þegar það kemur svona gæða sjónvarpsefni á skjáinn. Perlur í svínaskít.

Fyrst ég er að tala um svona þá langar mig líka að fagna myndinni sem var á Rúv í fyrradag. Adaptation. Hún var alger snilld! Frábært þegar maður á ekki von á neinu svona góðu og svo kemur það og talar beint til manns. Mig dreymdi meira að segja framtannalausa orkídeusafnarann um nóttina, sem þýðir að myndin hafði áhrif ofan í undirvitund. Það er vel af sér vikið!