sunnudagur, janúar 30, 2005

Kaffihúsin sem ég á eftir að fara á

Ég er mikið fyrir kaffihús og finnst gaman að fara á þau. Þetta er gott hobbí og þakklátt því það eru alltaf að opna ný kaffihús en ég gleymi þeim stundum og að ég stefni á að fara á þau. Þessvegna skrifa ég hér opna áminningu til sjálfrar mín um þau kaffihús sem ég á eftir að prófa:

Bleika kaffihúsið með kristalsljósakrónunni.

Þetta var að opna á Ingólfsstrætinu. Stelpa sem bjó í Danmörku var víst að starta þessu. Það er sjúúúúklega prinsessulegt með blúndum og bleiku og kristal út um allt. Ég hlakka til að kíkja á þetta. Svo er það pínulítið.

Amokka

Þetta er víst svona "uppa" kaffihús í Borgartúni. "Uppa" af því þarna koma allir Kaupþings krakkarnir í hádeginu og fólkið sem starfar þarna í grenndinni. Ég hef gaman af uppum. Þeir eru krúttlegir. Þessvegna verður gaman að fara þarna og skoða þá og smakka á kaffinu en það er víst agalega gott þarna. Svo er "uppinn" víst deyjandi dýrategund. Fer hver að verða síðastur að skoðann...

Iðu kaffihúsið

Merkilegt með þetta Iðu hús að jafnvel þó það blasi við á leiðinni niður Bankastrætið þá er eins og maður muni aldrei eftir því að fara þarna inn og það virðast aldrei vera margir þarna uppi. Samt er þetta huggulegasta kantína. Við átum á Sowieso um daginn. Sushi. Og það var alltílagi. En það er samt eitthvað ekki rétt við að horfa á feitan íslenskan matreiðslumann taka sér klukkutíma í að setja saman sushi. Ekki eftir að maður hefur séð aldraðan japana saxa þetta upp á nokkrum sekúndum og borðað kaliforníurúllur í sjálfri kaliforníu.

Rauða Myllan

Þetta er eitthvað svona ding dong kaffihús á Skólavörðustíg sem selur vöfflur og svona . Ég held að þetta ætti að geta verið svolítið huggó. Svona kellingakaffihús en vonandi ekki jafn þrútið af östrógeni og kaffihúsið Nauthóll sem mér finnst reyndar nokkuð skemmtilegt, en væri öllu skemmtilegra ef það væri ekki svona stappað af flíspeysu/aukakílóa/kántríföndurs krádinu sem er fyrir löngu búið að yfirtaka búlluna. Já... Rauða Myllan næsta múv. Mokka hefur haft völdin á Skólavörðustígnum allt of lengi.

Þetta eru fjögur... endilega minntu mig á ef ég er að missa af einhverju spennandi.