sunnudagur, janúar 30, 2005

Blogg um að búa í búk

Mikið er gott að hafa búk. Ég var að gera jóga æfingar með Geri Halliwell áðan og fann vel fyrir því hvað það er nú svakalega fínt að hafa búk. Núna finnst mér það sérstaklega skemmtilegt því það er svo mikill munur á honum núna og þegar ég var ólétt. Gaman að finna mun. Ekki það að það hafi verið eitthvað leiðinleg að vera ólétt en ég var bara svo þungstíg og maður var ekkert að sveigja sig neitt. Það er náttúrlega alveg magnað að verða ó og það stærsta undur sem einn búkur getur gert, en að dansa og fara í brú og koma við tærnar á sér er annarskonar snilld sem ég fæ mikið út úr.

Núna er ég mjög jákvæð og hress. Að gleðjast yfir því að hafa búk er mjög mikil jákvæðni. Einmitt öfugt við það sem mig langaði til þegar ég tók þunglyndiskastið hér um árið. Þá langaði mig helst til að vera heili í krukku uppi á hillu. Heili með meðvitund sem gat bara horft á krappí sjónvarpsefni allann sólarhringinn. Þurfa ekkert að hafa búk og sinna hans þreytandi þörfum heldur bara gera ekki neitt en vera samt með. Ekta þunglyndisrugl. Núna er ég ekki þannig lengur ónei ónei. Núna er ég kát yfir búknum mínum þó að hann sé allur hálf teygður og togaður eftir meðgönguna. Það skiptir engu máli því ég fékk svo fína stelpu í staðinn. Það er bara gaman að hafa búk. Svo er líka gaman að hafa putta sem þrumast yfir þetta lyklaborð og skrifa þessi orð. Og það er fjör að hafa augu sem sjá stafina raða sér niður á skjáinn. Og það er skrítið að hafa tungu sem er með hálf súrt möffins bragð á af því ég át möffins fyrir 3 tímum. Svo er fínt að hafa iljar sem finna kuldann á veggnum (af því ég er með lappirnar uppi á vegg).

Fyrir þig sem langar að upplifa búkhamingju með því að gera heimajóga þá langar mig að benda þér á að í Markinu í Ármúla 40 fást frábærar jógadýnur á 1500 kall. Hvergi ódýrari. Annarstaðar kosta þær ekki minna en 3000. Ég gerði verðkönnun. Ég er meðvitaður neitandi. Og glöð með þennan búk minn. Skrambi fínn búkur!