þriðjudagur, janúar 25, 2005

Ágæt sýning

Í gær skrapp ég með múttu á sýningu í Ljósmyndasafni Reykjavíkur sem ber heitið Fyrir og Eftir. Nokkuð áhugaverð sýning en samt frekar snubbótt. Ég hefði viljað sjá fleiri myndir þarna. Gaman samt að því að sjá hvernig hrukkur og svoleiðis voru lagaðar með redúseríngu á gömlu svart hvítu myndunum. Hefur eflaust tekið langann tíma og verið mikið maus að dippa pensli yfir þetta þannig að það kæmi vel út. Fólk hefur greinilega alltaf viljað fegra sig umfram það sem raunveruleikinn býður uppá. Eða eins og hún Andrea Jóns sagði einhverntíma "Manni finnst bara góðar myndir af manni sem sýna mann sætari en maður er".

Á safninu lá bók eftir ljósmyndarann Magnús Ólafsson og það eru alveg frábærar myndir. Sjálf ætla ég að láta stækka eina þeirra upp í eitthvað veglegt en safnið býður einmitt upp á þessa þjónustu gegn sanngjörnu verði. Myndin sem ég vil láta stækka er af mönnum með harðkúluhatta og konum í þjóðbúningum sem slaka á í lautarferð við Elliðaárnar. Mjöööögggg falleg mynd.

Í gær fékk ég heimsenda DVD diska sem ég pantaði á Amazon. Heimaleikfimi, Jóga og myndina Harold and Maude sem er vafalítið yndislegasta mynd sem ég hef séð. Fjallar um ofsalega morbid ungann mann sem verður ástfanginn af konu sem er c.a. 50 árum eldri. Cat Stevens semur og syngur alla tónlistina sem er ofsalega fín. Góður hann Cat.
Næsta þriðjudag mun þessi diskur vígður með kvikmyndaklúbbnum Afspyrnu á Garðastræti 17, en sá klúbbur hefur hist á hverju þriðjudagskvöldi í c.a. 10 ár og horft á margskonar myndir. Harold and Maude er mjög velkominn þar vegna þess að henni er leikstýrt af honum Hal Ashby sem gerði líka myndina Being there sem margir muna eftir með Peter Sellers í aðalhlutverki.

Mun vígja heimaleikfimi diskana á morgun. Smella mér þá í smá jóga og pílates. Gott að vera í fæðingaorlofi og stunda heimaleikfimi með ungann forviða í stólnum mér við hlið.