laugardagur, desember 18, 2004

Skammdegi og jól

Ég er og hef aldrei verið mikil jólamanneskja. Fyrir mér er þetta bara skemmtilegur dinner með pökkum eftirá.
Ég baka ekkert, hengi ekki upp jólagardínur, geri ekki sjúúúklega hreint, jólatré? kannski?
Nei, ég get ekki sagt að ég sé mikil jólakona. Ekki það að ég hafi neina jólafóbíu, en sundraða fjölskyldu júnittið og mikil búseta erlendis hafa gert mér það að ég lifi mig ekki inn í þetta af jafn öflugum krafti og margir sem ég þekki sem hafa alltaf búið hér og eru pabbi, mamma, börn og bíll. Hvað er líka að lifa sig inn í? Þetta er aðallega eitthvað sem lífgar upp á þennan dauða, dimma tíma og eina ástæðan sem ég sé til að fagna, er að fagna því að skammdegið er á undanhaldi eftir 21 des. Sannarlega til í að fagna því, en kýs að sleppa því að stressa mig yfir þessu. Tek jólunum rólega. Verð alls ekki hæper og þarf ekki að "ná" neinu.

Skammdegi. Er nefninlega ekki mikið fyrir skammdegið, en núna er það þolanlegra en oft áður af því ég þarf ekki að gera annað en að hanga inni í fæðingaorlofi og horfa á litla grjónið mitt.
Skammdegið upplifi ég vanalega sem svona innilokunarkennd. Eins og að vera í svefnpoka með reimað alveg upp. Komast ekki út. En í svona skammdegi þar sem maður "þarf" ekkert að fara út og getur bara kveikt á kertum og hlustað á Nick Drake og Leonard Cohen og sungið með og gefið unganum sínum að drekka og kjassað hann og knúsað er miklu betra að vera til. Svo fær maður góða gesti á hverjum degi sem koma færandi hendi til að hylla nýju manneskjuna og þetta er allt saman voða fínt og gott og blessað. Mæli með því að eignast barn í desember. Svo verður hún einmitt orðin svo stálpuð í vor þegar sólin er hátt á lofti og þá getum við farið í sund og spókað okkur oní bæ og svona. Það verður fjör.