Íslendingar eru púkó
Ég er ofsalega mikið "Droplaugarstaðir" þessa dagana. Get bara gengið í Ecco skóm, get ekki gengið langt í einu og er að drepast úr bjúg og andnauð. Merkilegt að barnshafandi kona skuli verða eins og kona sem er búin að vera úr barneign í 40 ár. Mitt innra gamalmenni gerir það líka að verkum að eina raulið sem kemur upp úr mér er gamalmennaraulið RæRæRæ...
Merkilegt
***(pása til að anda)***
Merkilegt að gamlir skuli raula ræræræ á meðan ungir segja umphumphump... eða lalalala... eða huummmmm hummm hummm... Ætli þetta ræræræ sé eitthvað svona revíu rugl? Revíur voru jú svo vinsælar í gamla daga. Allir í Iðnó að sjá Revíur! Nú horfir maður á Revíur í Spaugstofunni og áramótaskaupinu. Sjæse.
Revíur eru ömurlegar. Ferlega norskt konsept. Norðmenn hafa enn ofsalega gaman af Revíum og okkur þykja norðmenn púkó upp til hópa (nema mér finnst sumt ágætt við þá).
Íslendingar eru púkó. Það er helber misskilningur að við séum eitthvað hipp. Þetta er púkalegasta þjóð norður evrópu. Sjáið til dæmis árshátíðir vinnustaða. Þetta sér íslenska fyrirbæri. Skelfilega neyðarlegar og púkó uppákomur sem hafa ávallt sama upphaf, miðju og endi. Starfsmannafélagið sparar fyrir þessu allt árið. Rosalegur undirbúningur kvenna hvað varðar dress, smink og greiðslu. Hrikalegur bömmer ef einhver dúkkar upp í EINS kjól og þú. Uppstrílaðir vinnufélagar og feimnir makar að "hlægja" að einhverju innanhússgríni og borða kaldan, okurdýran, fjöldaframleiddan mat.
Graflax með ristuðu brauði
Lamb ala súfflei...
og Krem brúlei í ábæti
Svo drekkur hópurinn frá sér skynsemi og dómgreind. Galagreiðslurnar aflagast í takt við klukkuna sem lyppast upp í 23:00 og gáleysislegar athugasemdir fjúka um leigðann salinn; yfir sjúskaða dúka; undir bólstraðar sessur og inn í fullar sálir sem yfirleitt reyna að halda andlitinu frá 9-5 allann ársins hring.
Makarnir verða reyndar annaðhvort fyllstir, eða mest edrú, eftir því hvort þeir eru að passa makann sinn, drepast úr leiðindum, eða bæði. Í þessu ástandi reynir fólk svo að dansa við Stuðmenn eða eitthvað þaðanafverra og æla svo í klósettvaskana og fara á trúnó.
Spari -og leigukjólarnir (sem er svo erfitt að vera maður sjálfur í) koma heim með brunagötum og sígarettupestin fer ekki úr nærfötunum fyrr en eftir fjóra suðuþvotta: Árshátíðin. Áramótaskaupið. Spaugstofan. Stuðmenn. Helgi Pé. Þrjár systur. Geirmundur og sveiflan... Við erum svo sannarlega ekkert minna púkó en þýska slager menningin, valhoppandi svíar eða revíudýrkandi norsarar.
Og þetta fólk sem heldur sig úber smart. Eins og húfu/úlpu/krúttlega fólkið eða Arnar Gauti og hárhomminn þarna votts his feis sem ég man ekki hvað heitir... er það smart fólk? Ég bara spyr. Er ég smart? Mér er spurn...
Hvaða máli skiptir smart í öllu stóra samhenginu á landi míns föðurs, landinu mínu, lauguðu bláum raf/straumi. Og hvaða máli skipti ég. Og hvar kem ég inn í myndina?
Ræræræræræææææææ.... (svo gekk hún á vegg)*
|