laugardagur, nóvember 27, 2004

Já já

Í gær glápti ég á imbann (eða var það í fyrradag? ég man það ekki) og sá viðtal við Einar Örn Benediktsson. Mér fannst alveg merkilegt hvað hann var eitthvað alvarlegur. Bjóst ekki við því að hann væri svona alvarleg týpa... en það er aukaatriði. Mér fannst bara svo gaman að sjá Purrk Pillnikk. Sérstaklega með tilliti til þess að í þarsíðasta bloggi vitnaði ég í textaútfærslu þeirra á Landi míns föðurs.
Platan sem þetta lag er á, Ekki enn, er að mínu mati ein besta plata sem hefur komið út á landinu. Og lagið Ekki Enn er með þeim bestu sem hafa verið samin, sem og Flughoppið og Svefnpurrkur.

Já.

Á tímabili í lífi mínu, fyrir afar mörgum árum síðan, þá fannst mér ekkert fínna og betra en að byrja daginn á því að hlusta á Ekki enn. Textinn er nefninlega einhvernveginn svona:

ekki enn ekki enn fullkomið
ekki enn ekki enn nógu gott
en samt, einhverntíma, hlýtur að koma að því
en samt, ekki enn...

Og flutningurinn er allur svona hraður og hress og æstur til að koma manni alveg í gírinn fyrir daginn og setja markið hátt.