þriðjudagur, október 26, 2004

Óléttupósturinn

Ég er að komast á það stig að verða þreytt á þessari óléttu enda ekki nema tvær til þrjár vikur þar til full meðganga er liðin (full meðganga er 38-42 vikur og miðast frá 38). Naflinn á mér miðar á gólfið af því kúlan slúttir niður. Þegar ég fer úr sokkunum þá er stundum eins og ég sé í holdsokkum vegna vantssöfnunar í fótunum. Það er svona frekar ógeðslegt. Svo er maður bara alltaf þreyttur... og þungur. Ég er ógeðslega þung! Skiiiillll hreinlega ekki hvernig fólk nennir að vera feitt því ég myndi ALDREI meika að vera svona ef ég væri ekki að ganga með barn. Allar hreyfingar eru erfiðar. Meira að segja að snúa sér á hina hliðina og standa upp úr stól. Þetta er að vera -þunguð-.

Kúlan mín er líka yfir meðallag stór og ljósmóðirin komin með áhyggjur af því að ég sé með aspaströllið inni í mér. Sjálf held ég (og vona) að það sé ekki tilfellið af því ég er fíngert smotterí og að remba út úr mér stóru barni myndi örugglega alveg fara með stemninguna... svo langar mig ekkert í svona keisaraskurð því þá þarf maður að hanga lengi á spítalanum og hann er ekkert rosalega sexí get ég sagt ykkur.

Persónulega held ég að barnið okkar Björns sé ekkert rosalega stórt heldur bumban bara full af vatni. Ég finn það vegna þess að krílið er oftast alveg á milljón að gera Esther Williams æfingar með tilheyrandi Aliens stemningu á kúlunni sem bylgjast fram og aftur og það gæti ekkert gerst ef barnið fyllti alveg út í þessa geysilega stóru kúlu. Krílið er bara í góðum fílíng í djúpu lauginni og hefur nóg pláss til að strekkja sig og teygja. Þori næstum því að veðja. Ætla samt að láta kanna þetta með djúpsjávarskanna (sónar) til að vera alveg viss.

Hvað sem ölllu þessu líður þá er þetta og verður það merkilegasta sem ég hef á ævinni gert. Við fórum í foreldrafræðslu í gær og þar voru sýnd myndbönd af konum í fæðingu. Mér varð svo hrikalega um að ég átti í fullu fangi með að láta ekki tilfinningafossinn dynja úr augunum á mér og ég fann hvernig ég varð opinmynnt án þess að ráða við það.
Hingað til er fæðing það fallegasta sem ég hef séð á bandi. Alveg ótrúlegt! Og þegar barnið kemur út og opnar augun og gerir ekki neitt fyrstu sekúndurnar annað en að vera í rólegu sjokki yfir því að vera komið úr úr mömmunni og ofan á hana... íhhhhh, það er ómótstæðilegt og endalaust merkilegt og fallegt.

Og ótrúlegt en satt að ljósmóðirin benti okkur á það væri nú skemmtilegra að slökkva á GSM símum í fæðingunni þar sem þetta væri einu sinni stærsta stund lífsins.
Sumar konur eru víst bara á SMS takkanum: Fylgjan kominn!! Hálfnuð núna!!!
... og svarandi í símann og þannig. Ætli það megi hafa lap top og hanga á msn?