fimmtudagur, desember 11, 2003

Nú veit ég hvað er að mér! Ég fæ innilokunarkennd í þessu myrkri. Þessvegna langar mig í allt þetta sem ég taldi upp sem assósíasjónir sem ég upplifi þegar ég hlusta á ákveðna tegund tónlistar. Eitthvað bara að rjúka út úr sjálfri mér eins langt og ég kemst á gefnum forsendum. Hvernig kemst maður ´út úr sér´? Það eru til ýmsar leiðir. Til dæmis að drekka, eða taka dóp, en það kostar svo mikið fyrir sálarlífið. Skammgóður vermir að pissa í skóna sína. Hvað þá þegar manni svíður í nokkra daga á eftir þar til maður reynir að laga sviðann með því að míga aftur. Catch 22... Nei, það gengur ekki. Vélsleðar og kynlíf eru öllu gáfulegri leiðir til að komast ´út úr sér´... tónlist líka og að skrifa... skrifa... skrifa... Best að fara að skrifa... eða hvísla. Hvernig væri að hvísla allt í svona tvo daga. Bara magna upp demparann, innilokunarkenndina... Hvísla og vera með sólgleraugu... Raka svo af sér allt hár, taka gleraugun af og tala hátt fram yfir áramót. Ganga bara í hvítu.