Það var ógissssslega gaman í gær!
Við Eagle DK fórum í þetta partý á Prinsessegade og þar var þvílíkur urmull af dásamlega fallegu fólki að sjaldan hefur annað eins sést. Margir voru víst frægir þar sem þetta var svona kvikmyndabransa fólk, en við Örn erum í svo slöppum tengslum við veruleikann að við þekktum þetta fræga fólk ekkert.
Einn gaurinn, sem var voða sætur, var víst bróðir Sofie Gráböl en hún er fræg dönsk leikkona. Svo var einhver voðalega sæt stelpa þarna sem átti líka að vera rosa fræg leikkona; myndir af henni á öllum strætóum og læti, en við komum alveg af fjöllum... skemmtum okkur bara svaka vel í kellingaskyrtunum okkar og dönsuðum eins og við fengjum borgað fyrir það.
Eftir að hafa dansað af okkur rassana í þessu partýi fórum við á Nörrebro inn á stað sem heitir Rust og þar dönsuðum við aðeins meira. Í þéttum rapp fasa með rapp basa og fasta rassa skemmtum við okkur eins og Margrét og Hinrik með karton af Prince inni á klósetti í Kroneborg.
Þegar við vorum búin með Rust pakkann þá tókum við leigara heim og ég fór að dánlóda Bonnie Prince Billy handa Erni til að hægt væri að róa sig niður. Sofnuðum í morgunsárið og vöknuðum svo kl 10 við það að einhverjir geðsjúklingar fóru að hringja kirkjuklukkum hérna í kirkjunni beint fyrir utan. Ég er svo hneyksluð á þessu að ég næ ekki upp í nefið á mér. Til hvers að vera að hringja þessari klukku þó að það sé verið að fara að hylla frelsaragreyið?! Ég ætti kannski að fá mér svona á þakið heima hjá mér og í hvert skipti sem mig langaði til að biðja þá myndi ég hlaupa upp á þak og hamast á bjöllunni og vekja alla nágranna mína og alla í næstu hverfum. Láta mannskapinn vita af þessu... Þetta er svo úrelt að það hálfa væri nóg. Kannski skiljanlegt fyrir 200 árum þegar það voru ekki hús allt í kringum kirkjuna og bara ein trú í gangi, en í dag er þetta út í hött.
Þessi punktur tengist aftur pælingum sem ég er búin að vera mikið í undanfarið. Pælingum um það þegar hefðirnar eru algerlega úr tengslum við raunveruleikann eins og hann er í dag og gera fólki bara lífið leitt. Hefðir eða hugmyndir um hvernig hlutirnir eigi að vera. Þessu ber niður allstaðar. Bæði persónulega og í þjóðfélaginu. Einfaldasta dæmið um hefð sem er hætt að ganga upp er kjarnafjölskyldan. Falleg og yndisleg pæling, en er hún fúnksjónal í dag þegar hlutverk kynjanna hafa breyst svona rosalega? Það þurfa allavega að koma ný perspektív inn í þetta ef það á að ganga upp. Koma so! Vakna!
sunnudagur, nóvember 02, 2003
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|