laugardagur, nóvember 01, 2003

Ljúfasta ferðalag bara.

Fór í bæinn í gær og labbaði og labbaði. Keypti dúnúlpu og indverska kúrekaskyrtu. Fór í indverska búð og konan þar fræddi mig um indverska guði. Hún var voðalega næs, öll út í henna á höndunum.
Hér er voðalega mikið af skemmtilegum búðum sem gaman er að flækjast um í. Sérlega mikið komið af svokölluðum Second Hand verslunum. Ég man þegar ég var 12-13 ára þá byrjaði ég að gramsa í flóamarkaði dýraverndunarfélagsins og fann allskonar frábær föt. Mamma og amma voru aldrei neitt sérstaklega hrifnar af því að "ég væri að ganga í fötum af dánu fólki". Mér var sko slétt sama. Með þessu móti gat ég stílað mig upp sjálf enda kostaði nánast ekkert að kaupa svona föt. Í dag er sko öldin önnur og second hand föt eru oft bara dýrari en þessi nýju. Allt fyrir tízkuna. Frekar fúl þróun finnst mér en ekki mikið sem ég get gert til að sporna við þessu.

Í kvöld fer ég í partý en danir eru sérstaklega góðir í að halda svoleiðis. Partý kúltúrinn hérna er allt öðruvísi en heima. Í Kaupmannahafnar partýum fer fólk ekki út á skemmtistaði þegar allt búsið er búið. Hér eru keyptir stallar af bjórkössum, húsgögnum er rutt til hliðar og svo dansar fólkið og slettir úr klauf og klaufum þar til sólin kemur upp. Ef þú ferð til Köben þá er um að gera að reyna að koma sér í heimahús partý því þar gerast hlutirnir. Til dæmis kynnist maður miklu frekar ókunnugum í svona partý heldur en úti á skemmtistað af því í partýinu hafa þó allir það sameiginlegt að þekkja gestgjafann eða eiga með gestgjafanum sameiginlegan vin. Danir eru líka fordómalausari gagnvart ókunnugum en Íslendingar. Á Íslandi er algengt að fólk haldi að aðrir séu vitlausir þar til þeim tekst að afsanna það. Hérna ertu í lagi þar til þér tekst að sanna að þú sért vitlaus. Ekki þar með sagt að danir séu lausir við fordóma... ónei, fordómar eru sameiginlegt heilakvef mannkyns... en fólksfjöldinn gerir það að verkum að það er óþarfi að vera brjálæðingslega skeptískur á aðra. Þetta sama gildir víða annarsstaðar. Eins og t.d. í New York en þar kjaftar fólk saman í strætóskýlum og bankaröðum án þess að roðna og blána, en ef maður talar kasjúal við kassadömur heima þá verða þær stundum fyrst rosalega hissa en linast svo upp og verða hressar og málglaðar. Enda er fátt skemmtilegra við það að vera mannskepna en að eiga samskipti við aðrar mannskepnur.