laugardagur, nóvember 29, 2003

Hárið á mér er dásamlegt núna. Ég var að láta lita það. Áður en ég fór í litunina leit ég út eins og heróínisti með hvítblæði. Það er fátt ljótara en litað dökkt hár sem er komið með dulítið ljósari rót, jafnvel þó að það sé bara oggulítið ljósara. Núna er ég fögur sem íðill. Alsæl og er að fara að borða á Holtinu í kvöld og reykja svo ógurlegt magn af vindlum.



Joe Ray, ameríski blaðamannsvinur minn er hérna yfir helgina og hann stendur fyrir þessu Holts dæmi. Ætlar að skrifa grein í eitthvað Cigar magazine og af tilefninu ætlar Holtið að sponsa okkur á mat og vindlum. Ekkert smá fínt! Puffa innan um Kjarvalsverkin á Holtinu. Svo förum við eitthvað út að viðra okkur. Hann er bráðskemmtilegur alveg svo þetta ætti að verða fjör. Mig langar til að dansa en mér finnst eitthvað svo erfitt stundum að fara út að dansa hérna. Það vantar svona fínan dansstað með góðri loftræstingu og stóru gólfi. Það er alltaf svo troðið og svo er tónlistin svo misjöfn. Þegar ég bjó í Köben þá fór ég alltaf á Copenhagen Jazzhouse til að dansa. Þar var spilaður hinn svonefndi Acid Jazz sem er að mínu mati enn sú besta danstónlist sem völ er á ásamt diskóinu. Diskóið er Guðs gjöf til fólksins. Diskóið var upphaflega sent af himnum til Ameríku. Diskó er gleði. Ef ekki væri fyrir diskó þá væri heimurinn ekki eins hress og hann er í dag. Hugsa sér ef Saturday Night Fever hefði aldrei verið gerð, hvar værum við þá? Diskóið dreifði sér um veröldina með þeirri mynd. Glimmer vírus gleðinnar.

Mér finnst skemmtilegt að fara út að sletta úr klaufunum í hinum stóra heimi. Síðasta sumar fór ég út á lífið í Madrid og það var bara æði sæði. Madrid er ógeðslega fín og skemmtileg borg með fullt af oggu poggu pínku litlum börum. Ég á eftir að fara þangað aftur. Það er líka svo mikið af hommum þar og hommar eru diskó þanning að þar er nóg af diskó. Ég held að þessi laugardagur í dag sé diskó laugardagur. Holtið er reyndar ekkert mikið diskó, síður en svo, en diskó mun sogað inn í mínar æðar síðar í kvöld, það er að segja ef ég finn eitthvað eðal diskó hér í borg kúlsins. Trúið mér ég mun leita.

Það vantar diskó og það vantar sög
það vantar mállíngu og fjöruggg löhöggg....