Avoid The Void
Hún: Ég var að ljúga, ég er ekkert svona. Ég var bara að gefa eitthvað í skyn. Panikkeraði. Reyndi að gera stuttmynd í kollinn á þér.
Hann: Nei, ég veit að þú ert ekki svona af því hjartað í mér sá eitthvað annað. Hausinn er bara svo hræddur.
Hún: Já, en hjartað veit alltaf hvað er satt.
Hann: Já, ég veit það, en óttinn býr í kollinum og ef maður gerir ekki eitthvað róttækt þá hefur óttinn alltaf yfirhöndina.
Hún: Af hverju gerirðu þá ekki eitthvað róttækt?
Hann: Ég veit það ekki. Kannski er ég bara hræddur við það.
Hún: Hvaðan ætli hann komi, þessi ótti í okkur?
Hann: Kannski eru þetta leyfar af stóra hvelli? Eða því sem var þarna áður en hann átti sér stað.
Hún: The Void?
Hann: Já, og svo er þetta bara leikur sem heitir Avoid The Void.
Hún: Alltaf að hlaupa í burtu frá því sem maður er hræddur við en veit samt ekki hvað er. Svo dregur maður ályktanir af því sem maður hefur reynt áður.
Hann: Já, við vitum heldur ekkert hvað gerist á morgun.
Hún: Nei, við erum öll eins og fólk í þoku uppá heiði. Maður sér alltaf bara nokkra metra framfyrir sig en ekki meira en það. Það sem leynist síðan í þokunni er eitthvað óljóst, einhver hugmynd.
Hann: Það eru flestir svo hræddir við þessa þoku. Geta ekki sætt sig við að sjá bara nokkra metra fram fyrir sig. Kannski bara nokkra metra sem heita í mesta lagi 12 klukkustundir.
Hún: Lífið gerist bara. Hvað ætlarðu að gera?
Hann: Ég veit það ekki. Kannski anda bara djúpt.
Hún: Já, mér lýst vel á það. Það er í það minnsta hægt að anda í þessari þoku.
Hann: Viltu tyggjó?
Hún: Já, það fyllir kannski aðeins upp í tómið.
Hann flissar og réttir henni tyggjó. Þau horfa út um gluggann.
Hún: Hvað er klukkan?
Hann: 12
Hún: Ok, þá tekur næsta syrpa við. Ég ætla að halda mér í hjartað og fá mér þokugleraugu.
þriðjudagur, nóvember 11, 2003
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|