föstudagur, október 24, 2003

Ég var í jarðarför.

Hallgrímskirkja var full upp að dyrum þar sem ég sat þarna innan um allt þetta fólk og horfði upp í loft þá hugsaði ég um að allt þetta fólk ætti eftir að deyja á komandi árum. Hvert á fætur öðru. Einhverjir á næsta ári, svo fleiri á árinu þar á eftir, eins og öldur, koll af kolli og á endanum ætti hver einasta sála sem var þarna inni eftir að vera farin úr lífinu.
En þarna sátum við öll. Kannski fimmhundruð menn og konur, og fylgdum einni konu til grafar.

Kannski var þessi hugsun svona sterk af því ég fór á ljósmyndasýningu Magnúsar Ólafsonar (1862-1937) í Ljósmyndasafni Reykjavíkur bara rétt áður en ég fór í kirkjuna. Þar voru gamlar myndir af mannlífinu hérna í þessari borg fyrir hundrað árum. Alveg yndislega fallegar og skemmtilegar myndir. Sérstaklega af pikknikk við Elliðaár þar sem ungt og flott fólk í peysu og sparifötum var búið að stilla sér undarlega upp í kringum foss
... en þið vitið...
Allt þetta fólk er farið og allt slúðrið sem var í gangi þá er gleymt og allt er slokknað og núna erum við hérna að lifa og gera hitt og þetta og svona veltur þetta bara áfram, öld eftir öld.