þriðjudagur, ágúst 12, 2003

Ég er stundum svo barnaleg í útliti að ég er kölluð vinan. Þetta gerðist í dag þegar ég fór að tala við námsráðgjafa. Hann kallaði mig endalaust vinuna þar til hann vissi hvað ég er gömul og hafði talað aðeins við mig. Þá varð hann smá skrítinn og hætti að segja alltaf vinan.
Það fer í taugarnar á mér að vera kölluð "vinan". Þegar ég var barn þá fór það í taugarnar á mér að vera kölluð "krakki". Það er eitthvað svo ópersónulegt og virðingarlaust að vera kallaður "krakki" og að sama skapi er það undarlegt að vera á fertugsaldri og kölluð "vinan".

Merkilegt hvað fólk reynir stundum að pakka hvort öðru saman, eða þjappa niður þegar það finnur fyrir óöryggi (sjá ræðuna hans Mandela hér að ofan).
Það kemur fram í mörgu en m.a. þessu "vinan" veseni. Mér finnst í lagi þegar 90 ára gömul kona ávarpar mig með þessu móti vegna þess að ég veit að hún er ekki óörugg gagnvart mér, en þegar það er gert með þeim formerkjum að maður sé neðar í virðingarstiganum en sá sem ávarpar, þá fæ ég grænar bólur og bláar. Það er ekki neinn svona stigi til. Hann er bara í hausnum á fólki. Sumir halda að þeir/þær standi í efstu tröppunni. Ef einhver ætti að standa í þessari efstu þá væru það blessuð litlu börnin.

Þegar ég var fyrir vestan þá fann ég fyrir því að sumir sem höfðu ekki séð mig í 20 ár voru enn með hugmyndirnar um "krakkann" í kollinum. Ég var reyndar alveg dásamlega notorious "krakki". Einstaklega uppátækjasöm og hress, en ferlega var þetta eitthvað sérkennilegt að finna að þessar væru hugmyndirnar sem lifðu eftir öll þessi ár og að sumir væru ekki alveg tilbúnir til að sjá hver ég er í dag. Það var kannski eins gott að ég fór ekki að bregðast við þessum hugmyndum. Henda eggjum í húsið, stela tómum glerjum og svona. Ha?

Stundum heyrir maður af svona gagnfræðaskóla reunions þegar "9 bekkur F" hittist eftir 20 ár. Sumir komnir með ýstru, sumir í skuldasúpu, aðrir ekki. Allt í einu er eins og allir séu orðnir 15 ára aftur. Komnir í sömu hlutverkin og þeir/þær voru í fyrir 20 árum. "Já, ok... ég er villingurinn, ég er nördið, ég er gellan.... Best að halda þessu við"...Svo er eins og allir detti í sama gamla farið og allt verður ferlega absúrd og skrítið. Fullorðnir farnir að hegða sér eins og gelgjur. Svo líður fólki furðulega daginn eftir og fer í indenty krísu. Þetta gerist víst oft á svona samkomum. Að fólk bara detti í eitthvað hlutverk sem það gerir ráð fyrir að hinir vilji sjá það í.

Hvað ætli svona hlutverkaleikir taki mikið af þroska manns í daglega lífinu... Altso... Hvað ætli maður sé almennt mikið í því að leika hlutverkin sem maður býst við að aðrir vilji sjá mann í? Eins og t.d. gagnvart fjölskyldu, vinnufélögum, vinum... og hvað getur maður verið trúr sjálfum sér? Hvað fer mikið í þessar óraunhæfu og sorglegu málamiðlanir....?

Ég á fluggáfaða ættingja sem hafa alist upp í fámenni. Einn þeirra varð að gera verr í skólanum en hún gat til að styggja ekki aðra krakka. Ef þú ert of klár þá geturðu lent í vandræðum! Þegar ég var í Kópavogsskóla þá var ein stelpa látin stilla sér upp með einkunirnar sínar á skólalóðinni og svo var hún slegin utan undir af öðrum nemendum. Sumir hræktu á hana. Hún var of klár...! Eins og segir í laginu Working Class Hero; They hate you if you're clever and they despise a fool. Í dag er þessi stelpa voðalega söxsessfúl verslunarkona.

Í Danmörku er til fyrirbæri sem kallast Jenteloven. Það gengur út á það að viðurkenna helst ekki hæfileika annara eða að fólk geti hugsanlega verið framúrskarandi á einhverju sviði. Ef einn/ein stendur upp í bát sósíalismans er hætta á að hann fari að vagga og ef hann vaggar of mikið -þá gæti einhver fallið utanborðs... eða hvað?

(persónuleg skilaboð til Arnar; Örn, endilega settu jentelovs hugleiðingar inn í kommentakerfið *koss*)