Hann er með of rauða húð. Húð sem er alltaf of rauð, sama hvort hann hefur verið í sól eða ekki. Hvort það er kalt eða ekki. Frekar illa farin. Eins og hann hafi verið með hnausþykkar bólur sem hann hamaðist við að kreista þegar hann var unglingur. Örin eru eftir.
Hann er í stuttum mittisjakka og hörðum gallabuxum með broti. Sketcher strigaskóm úr Kolaportinu. Sólinn of þykkur. Hárið á honum er jarpt. Ekki rautt og ekki ljóst heldur eitthvað mitt á milli. Hann er 29 ára. Angar af Farenheit. Augun glansandi eins og þegar maður er með hita. Hann stendur fyrir framan sterkt ljós inni á skemmtistað. Ljósið lýsir upp þunnt hárið. Hann er dramatískur. Heitir Magnús Rósant. Muldrar það lágróma að stelpu sem honum finnst sæt. "Ég heiti Magnús Rósant, hvað heitir þú?" Hún heyrir ekki í honum. Hann lætur sem hann hafi ekki sagt neitt. Horfir strax í aðra átt. Langar til að dansa en þorir því ekki. Heldur að hann verði asnalegur. Hreyfir höfuðið í takt við tónlistina.
Pantar sér Pussyfoot kokteil á barnum. Smá malibu, smá ananassafi, smá vodka, smá beilís. Hrista vel. "Ég smakkaði þetta fyrst á Mæjorka. Þetta er ógeðslega gott. Smakkaðu aðeins!," segir hann við barstelpuna og hallar sér aðeins yfir barinn. Fylgist grannt með hverri hreyfingu hennar meðan hún blandar drykkinn. Hún segist ekki drekka. Hann brosir vandræðalega og spyr hvort hún eigi reghlíf. Hún horfir á hann eins og hann eigi bágt.
fimmtudagur, júlí 24, 2003
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|