föstudagur, nóvember 29, 2002

Alveg magnað hvernig þessar næturvaktir fara með mann. Núna vaknaði ég sex í morgun og var ekkert að geta sofnað aftur. Er þessvegna bara kominn með lappann upp í rúm ( saminn er enn frammi í stofu) og er að pikka og vesenast.

Það rignir úti og ég er að reyna að ákveða hvort ég ætti að klæða mig og labba út á Hlemm til að kaupa sígó eða ekki. Ég er líka að reyna að ákveða mig hvort ég eigi að fara að pikka inn viðtal eða ekki. Það væri reyndar ákaflega skynsamlegt af mér að gera það því mér líður alltaf illa ef ég geri ekki eitthvað gagnlegt. Kannski væri gott plan að reyna að sofna aðeins aftur, vakna svo og byrja á þessu. Þarf að fara á fund kl 12. Það er alltaf nóg að gerast.

Fatta ekki þetta með að drepa tímann. Horfa á sjónvarpið af því það er ekkert betra að gera. Jiminn? Hver vill drepa tíma sem líður svo hratt að hann fer úr fókus?

Það er sumarbústaðarferð í bígerð um helgina og hún ætti að vera skemmtileg því það er svo óljóst hverjir mæta og hvað verður gert. Svona einskonar rússarúlletta án kúlu. En með kassagítar, mat, teikniblokkir, tónlist, vídeómyndir, kaffi, penna, kerti og kátínu verður frekar erfitt að klikka. Það er lýðnum ljóst. Best að taka aksjónaríið með líka til vonar og vara.

Í fyrradag stóð ég við Hlemm og mætti Sigga hristuleikara í hljómsveitinni Singapor Sling. Siggi tilkynnti mér að það stæði til að fara að rífa Hlemm og færa hann eitthvað nær Kringlunni af því það stæði til að breyta um miðbæ. Ég er ekki að fatta þetta. Rífa Hlemm? Það er ómögulegt. Ég á eftir að taka á mig rögg og hlekkja mig við Hlemm ásamt fullt af gömlum paunkurum og rónum og rugludöllum og við eigum eftir að krefjast þess að Hlemmur verði gerður heilagur. Líkt og Snæfellsjökull. Mér finnst þessi niðurrifs árátta í þessari borg vera alveg fáránleg. Það er endalaust verið að rífa allt á fullu. Ekkert fær að vera bara, sama þó að það sé gamalt eða ljótt. Svo er þessi endalausa paranoja með að það sé ekki verið að versla nóg á Laugaveginum og þessvegna eru alltaf einhver vonlaus plott í gangi til að bæta úr því. Eins og t.d. að láta fólk borga 200 kall í stöðumæla. Hvernig væri að keyra frekar áróður sem segir fólki að labba af sér helvíts pizzu spikið. Það sé ekki mikið mál að ganga frá bílastæði og inn í verslun þó að stæðið sé ekki beint fyrir framan. Það versta sem gæti gerst væri að manneskjan myndi losna við örfá grömm. Þetta eru asnar Guðjón!... Sko, núna er ég pirruð af því ég er illa sofinn. Farinn að æsa mig yfir einhverju svona. Best að fara aftur að sofa, trítla svo á minn heittelskaða Hlemm á eftir og kyssa gólf og veggi. Haleljúja.