þriðjudagur, nóvember 26, 2002

Ég var að hlusta á gufuna áðan. Þetta er frábær útvarpsstöð. Morgunleikfimin átti að koma mér í gang og fá mig til að hoppa framúr og segja hátt:

"Jibbí, nýr lúxus dagur fullur af tækifærum. Ég er orkumikill einstaklingur í stuði!"....

Þátturinn hófst á laginu Working 9-5 (what a way to make a livin) með Dolly Parton, svo var feidað yfir í Enyu. Þetta var voða skemmtilegt. Maður átti að horfa til hægri, vinstri, hægri, vinstri... beygja hné, liðka puttana eins og maður væri að spila á píanó og herpa rasskinnarnar. Ég gat gert þetta allt á meðan ég lá í rúminu og meira að segja allt í senn.

Svo komu lesnar auglýsingar og aumingja Gerður G meikaði ekki setninguna Rafhlöðubúðin Rafbót og lái ég henni það ekki því hvurslags nafn er þetta eiginlega á fyrirtæki. Rafhlöðubúðin Rafbót... Rafselurinn Rafael...?

Jæja jamm og já. Best að hendast útleikfimuð út í daginn að sinna erindum. Kaupa nýjan sturtuhaus og svona svo að ég geti farið í steypibað. haha... steypibað, rafhlöður, flatbökur, bifreið... best að fara að nota þessi fínu orð aðeins meira.