föstudagur, október 17, 2008

Graða gelgjan

Unglingurinn var skilinn eftir einn heima og að hætti unglinga hélt hann rosalegt partý.

Síminn í örbylgjuofninn. Gardínur út í sjó, sófasettið í garðinn, Kjarval í sturtuna "Ætli það sé hægt að þvo fjallið í burtu?". Smokkar útum allt og rúm foreldranna brotið í miðju.

Svo komu mamma og pabbi heim: HVAÐ Í ANDSKOTANUM GERÐIST EIGINLEGA HÉRNA?!!??

Og unglingurinn "Æi, sorrý. Ég fór í blakkát."

Mamma og pabbi hringja í Securitas og leigja ryksugu. Sjóvá til að gá hvort Kjarval hafi ekki örugglega verið tyggður og svo framvegis. Unglingurinn er settur í straff. HINGAÐ OG EKKI LENGRA!

Akkúrat.

Þroskastig íslensku þjóðarsálarinnar hefur lengi minnt mig á ungling á gelgjuskeiði. Ungling sem er að þroskast. Why? Unglingar eru nýjungagjarnir, graðir og yfirleitt fyllri af kappi en forsjá, nákvæmlega eins og Íslendingar.

Við fórum ekki að þroskast á við aðrar þjóðir fyrr en fyrir svona 70 árum. Fram að því var allt á hold. Í fokking 700 ár.

Hor
Torfkofi
Slátur
Álfar
Roðskór

Hey, skotthúfa!

Ullarsokkar
Blóðskömm
Lýsi
Þorrinn

Fuck

Evrópa: arkitektúr, leiklist, tónlistarstefnur, bókmenntir, matarmenning, deitmenning, pólitík, heimspeki, jóga, kastalar...

Þetta svona gerðist og þjóðirnar hafa þroskast í takt við það. En Íslendingar eru pínulítill ættbálkur á eyju norður í hafi. Við erum ættbálkur af því við segjum "hverra manna ertu" og erum ekki lengi að rekja liðið saman. Og þessvegna verður útlendingur alltaf útlendingur. Og þessvegna er ekkert kallað spilling af því þetta eru vinir og ættingjar að hjálpast að. Af því það eru allir svo tengdir hvort sem er... og þannig er það bara.

Það er mikið talað um menntun þessa dagana, en baby, það er mjög stutt síðan fólk fór að mennta sig hérna. Mjöööggg stutt. Þegar ég var að alast upp var t.d. ekki beint gert ráð fyrir að stelpur færu í háskóla, nema þær sem áttu kannski mömmur sem fóru sjálfar í háskóla og þær voru ekki margar.
NÚNA er krafa um menntun allstaðar og konur komnar yfir 35 og uppúr hendast í minnimáttarkasti í skóla. Til að geta flaggað gráðunni eins og Vutton töskunni.

Undanfarin 10 ár hefur mér liðið eins og ég stæði í auga stormsins. Fylgst með einhverju kreisínessi þyrlast upp á djöflaeyjunni. Nánast eins og á time-laps, horfa á deitmenningu, matarmenningu og fleira kikka inn með látum. Ofsalegum látum.
Fyrir tíu árum vissi fólk ekki hvað ætiþistill var en núna er það statustákn að vita með hverju á að éta ætiþistla. Það verður allt svo skrítið þegar það gerist svona hratt. Fyrir tíu árum kyssti íslendingurinn ekki einu sinni ættingja sinn í kveðjuskyni. Nú er maður kysstur fimm sinnum af fólki sem er verið að kynna fyrir manni. Ekkert slæmt... en þú veist. Kinda weird.

Og núna fór ættbálkurinn í að halda rosalegt kredit partý og það er búið að bræða símann í öbbaranum og taka nektarmyndir af okkur þar sem við liggjum berrössuð í blakkáti með raksápu á hausnum og franskar úr nösunum og setja á netið. Heimurinn missir virðinguna og mamma og pabbi verða að borga brúsann -næstu 20 árin. Bara verst hvað þau eru blönk.

"Nýja Ísland" er í "startholunum" með allt í mínus. Ef Ísland væri karlkyns og á lausu þá myndi ég ekki byrja með honum. Það byrjar enginn með nýfráskildum manni sem skuldar 200 milljónir. Ekki ef það er allt í lagi í hausnum.

Nýja Ísland gæti orðið flott. Það gæti orðið nýsköpunarstaður, orka, umhverfisvernd, álfar og norðurljós en það gæti líka orðið eins og þunglyndisleg Kaurismaki mynd. 15% atvinnuleysi, vodka og vonleysi. Álver upp um allt og rússneska mafían með hreðjatak á ættbálknum sem í raun er bara 15 ára.

Hver veit?