Heilagur Valentínus
Í dag er dagurinn hans Valentínusar og þar sem ég er iðinn við að taka þátt í öllum helstu trúarbragðapartýunum held ég vissulega upp á þennan dag. Það geri ég með því klæða mig að hætti Valentínusar
Núna er ég í bleikum kufli með blúndudúk undir og stórum krossi framan á. Ég held á jukku af því það var ekki til pálmi í blómaval. Er með álpappírshring fyrir geislabaug.
Það var horft frekar mikið á mig úti á vídeoleigu áðan en mér er sama enda veit ég betur en þau.
Það besta við trúarbrögðin eru öll þessi partý og búningarnir. T.d. jólasveina og jesúbúningar. Frábært. Klæði mig alltaf að hætti Jesú um páskana en á jólum finnst mér gaman að vera Guð. Eða jólasveinninn. Þeir eru hvort sem er eiginlega alveg eins svo það er bara að skipta um yfirhöfn.
Svo held ég náttúrlega líka upp á bónda og konudag, bollu og sprengi dag, öskudag og þorra. Þorlák og þrettánda og margt fleira. Og ef það er eitthvað sérstakt ár þá er um að gera að halda upp á það. Ég hélt t.d. mikið upp á ár kartöflunnar og ár hafsins.
Einu sinni barðist ég árlega fyrir því að bolludagurinn yrði gerður heilagur. Hlekkjaði mig meira að segja við stóra bollu á Lækjartorgi árið 1992 og grét fram á kvöldmat. Dýrlingatárum.
Þetta var samt í þá tíð þegar lítið var tekið mark á svona baráttumálum. Staðan gæti hafa breyst núna. Bara verst að ég þarf að fara að vinna á mánudaginn. Annars færi ég niður á torg með minn málstað. Ekki spurning.
|