miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Hvort er verðmætara?

Hvort ætli sé verðmætara á 21 öldinni:

Álver i óspilltri náttúru -eða- ímynd óspilltrar náttúru?

Ég hef hugsað svolítið um þetta. Svo hef ég líka hugsað svolítið um þá staðreynd að það eru fleiri Bjarkar aðdáendur í heiminum en allir Íslendingar samanlagðir. Og ef maður leggur saman aðdáendur Bjarkar og Sigurrósar ásamt aðdáendum óspilltrar náttúru þá erum við komin með ansi stóran fjölda. Nokkrar milljónir.

Sérlegir aðdáendur álvera í heiminum rétt'upp hend...

Anyone?

Ég hef líka hugsað um það að hún Björk hefur náð að koma ár sinni ansi vel fyrir borð einungis með því að styðjast við eigin hæfileika og hugvit. Hún er frægasti Íslendingurinn. Núna leggur hún dag og nótt við að reyna að deila þessu hugviti með þjóð sem henni er annt um.

Þarf að ræða þetta eitthvað?

Ps.

Í Franska hverfinu í New Orleans eru "keðjur" bannaðar. Þar eru engar Starbucks stöðvar, enginn MacDonalds, engin HM búð... engar keðjur. Bara litlar einingar... litlar verslanir, lítil veitingahús, lítil dásamleg kaffihús, litlar plötubúðir og óskaplega margir barir þar sem jazz og fönk ómar allann sólarhringinn.

Af hverju?

Af því flott fólk kann almennt gott að meta. Franska hverfið hefur um árabil verið vinsælasti ferðamannastaður Suðurríkjanna og borgaryfirvöld í New Orleans vilja ekki skemma stemmninguna með MacDonalds. Þau virðast skilja merkingu orðsins "verðmæti".

Hér eru Ásdís og Stacy í New Orleans:



Hér eru þær á kaffihúsi sem er ekki keðja:
Þetta sá ég á veitingastað í Franska hverfinu (hann var ekki keðja):
Þetta er skilti á gríðarlega vinsælu veitingahúsi í LA (takið eftir orðunum "local-organic-farm"):
Þetta sá ég útum hótelglugga á MGM hótelinu í Las Vegas:



Viðbót: Skrifaði þetta komment hér á bloggið en það er svo langt að það má til með að fara hér með:

Las Vegas er skítapleis. Það er ekki hægt að vera þar allsgáð. Fólk þarf að hella sig fullt til að geta lifað þetta af og það stoppar enginn lengi í Vegas.

Flestar koppagrundir heimsins hafa verið virkjaðar og byggðar, plógfærðar og innrammaðar á síðustu öld. Iðnbylting a go-go.

Ísland er einstök lítil eyja þegar það kemur að náttúrufegurð. Hér hefur lítið verið átt við fjöllin og firnindi...öfugt við önnur lönd. Við erum heppin hvað þetta varðar og þetta er ástæða þess að ferðamannaiðnaður hefur vaxið um 100% á ári, undanfarin ár.

Það sem ég er að tala um er að virkja ferðamannaiðnaðinn enn frekar á forsendum óspilltar náttúru. Spilavíti í náttúrunni væru reyndar skömminni skárri en álver...sem eru langt frá því að vera augnayndi eða vera hluti af því sem samræmist Shangri-La hugmyndum náttúru unnenda. Stóriðja er meira "Múrmansk" á meðan óspillt náttúra er svona "Eden".

Ef maður á land sem er óspillt og verðmætin sem felast í því að eiga slíkt land (ferðamennska) fara vaxandi ár hvert... er þá ekki svolítið skrítið að gera ekki allt sem er hægt til að vernda þessi verðmæti?

Ég hef ekkert á móti því að hér sé virkjað, mér finnst bara skrítið að þetta þurfi allt að snúast um stóriðju og vinnslu á hráefni sem er sent óunnið úr landi. Það þarf ekki að byggja hérna álver í öllum landsfjórðungum til að skapa tekjur. Langar þig t.d. að vinna í álveri? Held ekki... en ef hér væru bílaverksmiðjur og farandklósettverksmiðjur... langar þig að vinna þar? Ehh...

Held þú værir meira til í að vera þjóðgarðsvörður í Ásbyrgi eða kokkur á Mývatni en starfsmaður á lyftara í Álveri. Er þetta ekki spurning um lífsgæði?

Og Orri. Keðjur gera fátt annað en að gera eitt fyrirtæki svakalega ríkt og ryðja samkeppni í burtu. Ert þú ekki fyrir einkaframtakið og því fleiri sem leggja sitt af mörkum í það, því betra. Bónus hefur enn ekki drepið Kjötborg... en ansi margir liggja í valnum.

Flestar keðjur framleiða ódýrar vörur í sweat-shops í þriðja heiminum. Keðju hamborgarar eru aldrei eins góðir og þeir sem eru steiktir einn í einu.

Það er til nóg af fólki í heiminum sem kann gott að meta.

Í Vegas sá ég fátt annað en strompreykjandi fitubollur sem sátu dofnar fyrir framan spilakassa (úr áli) að pumpa niður klinki.

Í New Orleans sá ég dansandi snillinga, borðaði geðveikan mat og hlustaði á magnaðan jass.

Hvort er meira spennandi?