mánudagur, október 20, 2008

Lygi

Ég hugsaði ekki mikið um lygi eða lygar fyrr en dag einn í ágúst 1996.

Var stödd í matvöruverslun þar sem vinur minn var að selja fisk. Aldi heitir búðin. Á veggnum bak við afgreiðsluborðið hékk mynd með fallegum laxi að stökkva upp á móti straumnum og yfir stóð "Villtur norskur lax á góðu verði"

Ég spurði vin minn hvort þetta væri tilfellið. Að Aldi væri að selja villtan lax. Hann hló og sagði "Nei, biddu fyrir þér. Þetta er danskur eldislax!".

Og þá rann upp fyrir mér ljós. Það er logið að manni í stóru sem smáu. Stór fyrirtæki ljúga og fólk lýgur. Stjórnmálamenn ljúga, forsetar ljúga og forsætisráðherrar ljúga.

Ég fór að íhuga lygina sem fyrirbæri. Las stórkostlega bók sem heitir People of the lie og ákvað í kjölfar þess að steinhætta að ljúga svo lengi sem heilinn í mér væri rétt starfandi.

Reyndar er það ekki einfalt mál að ljúga ekki en margt getur maður afgreitt með hraði. Það er til dæmis mjög auðvelt að sleppa tilfæringarlygum. Semsagt að ljúga upp ástæðum fyrir einhverju.

Ef ég er ekki veik þá lýg ég því ekki að vinnuveitanda mínum að ég sé veik. Ég lýg engu um það af hverju ég er sein eitthvað eða að ég sé að fara að gera eitthvað sem ég er ekki að fara að gera. Ég skulda nefninlega engum rangar skýringar á neinu máli. Það gagnast engum. Oftast tel ég mig ekki skulda skýringar á því sem ég geri í lífi mínu en ef til þess kemur að ég þarf að útskýra eitthvað þá er lygi ekki auðveldur valkostur.

Ef þú lýgur þá seturðu af stað atburðarrás sem er óraunveruleg. Atburðarrás sem er byggð á því sem ekki eru staðreyndir. Þetta kallar á miklar flækjur og sendir fólk af stað í einhverja átt sem það á ekki að fara. Lygar lengja þannig tímann sem það tekur að komast að settu marki.

Ef ég byrja með manni og lýg því að honum að ég elski hann þá fer svo og svo mikill tími í eitthvað sem í raun er ekki neitt. Ég tef örlög mannsins og sendi hann og mig í krókaleiðir að því sem á raunverulega að gerast í lífum okkar.

Ef stjórnmálamaður lýgur að kjósanda þá er hann aðeins að tefja fyrir sjálfum sér og senda fólk í ranga átt. Hvort sem upp kemst um lygina eða ekki þá mun þessi ranga leið alltaf enda í ógöngum og við leitum ósjálfrátt að réttu leiðinni að nýju. Því það er leiðin sem við eigum að fara.

Sjálfsblekking er svo annað mál. Önnur tegund af lygi og öllu erfiðari en að segja satt um það af hverju maður er of seinn í vinnuna.
It has been theorized that humans are susceptible to self-deception because most people have emotional attachments to beliefs, which in some cases may be irrational.

Oft er blindi bletturinn svo stór að maður hangir í sjálfsblekkingunni von úr viti þar til allt í einu BAMM og augun glennast upp. HVAÐ Í FJANDANUM ER ÉG AÐ GERA HÉRNA?! Og svo er reykspólað í burtu.

Mér finnst þetta svolítið vera að gerast á stórum skala hér á Íslandi í dag. Þoku blekkingarinnar er að létta og við blasir hið raunverulega ástand, óháð því sem okkur langaði og okkur var sagt að trúa.

Amma og afi trúðu því að hamingjan fælist í einbýlishúsi og stóru skinkustykki inni í ísskáp. Þetta erfðist og flest okkar trúðu því líka. Trúðu því að gildismatið sem Davíð og frímúrararnir bjuggu til væri það eina rétta. Að eina rétta leiðin til að sanna sig sem leikmann í lífinu væri að eiga nógu fjandi fínt dót, setja ex við dé og vinna og vinna og vinna. Eiga hús og maka og bíl og ekkert af þessu mátti klikka því það eru merki um mistök, aumingjaskap. Sorglegt en satt.

Emotional attachment to beliefs.

Ég þekki fólk sem hefur árum saman verið í ófullnægðum samböndum vegna þess að það að slíta þeim á að tákna mistök. Sambandið "mistókst". Ó, en leiðinlegt. Eða hvað? Nei. Það sem tekur við er vanalega miklu skemmtilegra fyrir þetta fólk. Af því það gengst við sannleikanum, öðlast nýtt frelsi, kemur út úr "skápnum", fer út úr sambandinu og er samkvæmt sjálfu sér.

Mér finnst það hafa sýnt sig og sannað að stjórnsýsla þessarar þjóðar okkar er eins og gersamlega misheppnað ástarsamband. Það sjá það allir nema aðilarnir sem eru í sambandinu, fullir sjálfsblekkingar vegna þess að þeir eru enn of fastir í því að "þetta má ekki mistakast, við megum ekki bregðast hinum".

Þeir þurfa að standa sig "innan flokksins" og sýna hvers þær, þau, þeir eru megnugir. Þó það sé algerlega "irrational".

Mikið vona ég að þessu fari að ljúka.

Hér er svo fallegt lag sem minnir mig á það góða við að vera af íslensku bergi brotin. Ég syng þetta fyrir dóttur mína á kvöldin. Ein af vögguvísunum okkar:

Kemur ekki vor að liðnum vetri, vaxa ei nýjar rósir sumar hvert?

Njóttu vel.