föstudagur, október 10, 2008

I'm a journalist



Nú vil ég taka mér þennan mann til fyrirmyndar eins og ég hef reynt að taka mér fyrirmyndina hans til fyrirmyndar mínus ether sniff og líkamsgerð (sjá Facebook).

Það eru spennandi tímar framundan á Íslandi og margt á kannski eftir að breytast til hins betra. Þau sem hafa lesið þetta blogg síðan 2002 vita að ég hef aldrei verið neitt voðalega "stolt" af því að vera íslendingur. Finnst margt hérna krúttlegt og sætt (Þórbergur og Lónlí Blú Bojs) en frá því ég flutti heim frá meginlandi Evrópu hefur þjóðarsálin minnt mig á útfrymi úr vitum Silvíu Nætur og hún er ekkert rosalega krúttleg.

Eftirfarandi skrifaði ég t.d. fyrir fimm árum á þetta blogg:

"Ísland, þetta "fallega, óspillta land" er setið af forheimskum plebbum sem lifa á krít og hugsa ekki um annað en að græða peninga til að borga upp skuldir sem þeir komu sér sjálfir í.
Materíalisminn er að kæfa fólk og dauðasyndirnar sjö eru skrifaðar á dyrabjöllur fjölbýlishúsa. Fólk er keyrt áfram af erfðagildum frá langaafa og langömmu sem voru að drepast úr hor og gátu því ekki hugsað skýrt, sleiktu bara rassgötin á því sem flokkaðist sem "yfirvald" og leyfu því að ríða sér ósmurt á meðan.
Í dag er farið í Kringluna og á Kentökkí fræd á sunnudögum og hin æðsta gleði felst í því að minnka prósakið en ekki að setja síðasta púslið í Effell turns púslið. -Úber menshið íslenska er komið með offituvandamál.
Nostradamus meinti Færeyjar þegar hann sá spámanninn frá eyjunni í norðri.

Það er ekki lengra síðan en svona 50 ár að eina menntaða fólkið á landinu voru læknar og presta. Þessvegna hafa læknar og prestar þótt hálf-guðir þar til fyrir skemmstu. Skáld eru aumingjar og sömuleiðis listamenn þar til þau meika það í útlöndum eða drepast.
Fólk sem gengur til sálfræðings er geðveikt og geðveikt fólk er geðveikt í spennitreyju á Kleppi. Tyrkir og múslimar eru vondir. Davíð Oddson er maður með rétt gildismat í lífinu og öll ættum við að fara að hans ráðum.
Nýi seðlabankastjórinn sagði að Íslendingar væru stundum of merkilegir með sig, gleymdu því hvað við erum lítil þjóð og slepptu því þessvegna að leita ráða erlendis frá. Við erum ekki bara lítil, við erum lítil og forheimskuð eins og lús á bakinu á fíl eða hrúðurkarl sem er búinn að sjúga sig fastan á breitt bakið á tignarlegum hval.

Flestir hérna þekkja ekki rýmra svæði en rassgatið á sjálfum sér: Fara í vinnuna, í sjoppuna, á videoleiguna og heim. Kannski til Spánar í sumarfríinu at ðe móst og fæstir tala þá spænsku.
Heimurinn er Ísland og það sem hinum finnst "skiptir ekki máli".
Látum okkur vera alveg sama hvernig þessi þjóð kemur fyrir sjónir í augum heimsins. Drepum hvali og búum til virkjanir og græðum peeeenniinnnngggggga svo við getum verið meira eins og pimpar í hvítum jakkafötum á kadilökkum sem allir í hverfinu sjá. Bling bling.... borgað skuldir... heim í kribbið að skoða VISA reikninginn... Flottræfill heitir þetta á gamla málinu en hver notar svoleiðis orð þegar nánast allir falla undir heitið?

-Við reddum þessu!

...eða hvað?

Nota bene: Þetta er ekki sjálfsbyrgingsleg ræða sem á að upphefja mig yfir pöpulinn því ég er hann jú líka. Sjálf er ég oftar en ekki vel þjökuð af hverskyns millistéttargildum og allskonar erfðasyndum sem baga mig og plaga og missi mig oft út í smámunalega hvatvísi sem lætur mér líða eins og það sé erfitt að ná með ídealismanum upp í hin æðstu gildi. Ber skapgerðabresti forfeðra minna á vel pússuðu fati án þess að sjá svo mikið sem eitt sekúndubrot... algert blind spot. Svo er kveikt á þessari flúorhvítu meðvitund sem lætur mig tala eins og ég tala í þessari færslu... hausinn snýst í hálfhring og ég æli stafasúpu.
Ég hata mig og elska mig alveg eins og ég hata og elska land og þjóð og stundum fæ ég leið á mér og þoli mig ekki."

Já. Svona talaði Linda Blair aka MHG árið 2003 svo "ást mín" á þjóðinni er sannarlega ekki ný af nálinni.

Og út af þessu viðhorfi hef ég einhvernveginn reynt að ignorera flokkapólitík og horfa framhjá þessu fólki sem mér hefur í raun fundist hvert öðru kjánalegra- Flestir nema Steingrímur Joð, Pétur Blöndal og fimm aðrir...

En kannski að nú sé kominn tími til að taka pirraða besservisserinn af fóninum, hætta að rífa bara kjaft og fara að rífa eitthvað annað? Mynda mér skoðanir á fleirum en Steingrími Joð og Pétri Blöndal?

Jú, ætli það ekki bara. Og skrifa svo jafnvel um það?