Laxness, alkarnir og óþrifnaðurinn
Í lok ágúst árið 1929 skrifaði Halldór Laxness kafla í Alþýðubókina sem nefnist Um þrifnað en þá var hann staddur í Los Angeles. Þar fer hann mörgum orðum um óþrifnað þjóðar sinnar á ýmsum sviðum.
“Þótt alkunnugt sé að íslendíngar eru náttúraðir fyrir óþverraskap, spillir ekki að ámálga þessa heimsfrægð vora einu sinni enn. Verður þá fyrst að minnast á þá ósvinnu sem lýsir sér í leti þeirra að hirða líkama sinn. Það er ekki liðinn nema röskur mannsaldur síðan kaupmaður nokkur fyrir norðan varð nafnkunnur út um sveitir fyrir „að nudda andlitið á sér upp úr vatni á hverjum morgni“. Á þessari öld hafa íslendíngar þó komist svo lángt að nudda á sér andlitið upp úr vatni einu sinni á dag. Hitt er fágæt undantekníng að íslendíngur hafi þá daglegu reglu að þvo sér um líkamann, enda eru baðker sjaldsénir gripir á Íslandi, og fátt þykir útlendum ferðamönnum eftirminnilegra þaðan en það dæmalausa fyrirkomulag að fram til þessa hafa ekki verið til einföldustu baðáhöld í neinu íslensku gistihúsi. ... Hreinn límai veldur þokkalegu sálarlífi. Menn fara að hugsa bjartara; menn fara að vilja fegur. Hreinir menn eru geðslegir í umgeingni. Viti maður sig geðslegan fyrir sjálfum sér verður hann ósjálfrátt geðslegur gagnvart öðrum. Maður sem veit sig ógeðslegan með sjálfum sér hagar sér ruddalega gagnvart öðrum. Sóðaskapur og ókurteisi helst í hendur.“
Svo talaði hann hreint út um skoðanir sínar á alkahólistum:
Þar segir:
„Íslenski fyllirafturinn er skrímsli sem tilheyrir sérstökum kapítula náttúrufræðinnar, enn óskrifuðum. Sú fullnaðaruppgjöf og fótumtroðsla mannlegs virðuleiks sem einkennir venjulegan íslendíng undir áhrifum áfeingis er óhugsanleg meðal siðaðra manna. Áfeingisneysla á hvert höfuð er meiri í mörgum löndum en á Íslandi, og lángmest í flestum þeim löndum þar sem drukkinn maður á almannafæri má heita óþekt fyrirbrigði. Íslendíngar nota áfeingi afturámóti alt öðruvísi en aðrir menn. Orsökin til þess hve ölæðíngar trana sér fram í bæarlífinu hér er ekki sú að drykkjuvísitala okkar sé svo há í samanburði við ýmsar aðrar þjóðir, heldur hin, hve lítt siðaðir við erum, hve grunt er í okkur ofaná hinn frumstæða siðlausa barbara: hann er kominn upp í okkur óðar en við finnum lykt af brennivíni; við þolum ekki áfeingi. Þessi eilífu drykkjuærsl í íslendíngum ef þeir þefa af áfeingi eru tákn hins sama skorts á mannasiðum sem einkennir íslenskt þjóðfélag yfirleitt og meðal annars birtist í tóni íslenskrar blaðamennsku, framkomu æskulýðsins á götunum, vanmentun okkar til flestra verka nema þeirra sem mæld verða í pundfetum, eins og draga fisk; getuleysis mikils hluta þjóðarinnar til að tjá hugsanir sínar og tilfinníngar öðruvísi en með blótsyrðum. Það þarf siðmenníngu til að geta umgeingist áfeingi. Þegar aðrir menn neyta áfeingis sér til skemtunar eða einsog krydds með mat sínum, eða til að heilsa gesti og góðvini, má undantekníngarlítið fullyrða að íslendíngar neyti áfeingis sér til leiðinda og kvalræðis.“
www.gljufrasteinn.is
|