þriðjudagur, apríl 15, 2008

Wanderlust

Undanfarna daga hef ég verið þjökuð af útþrá sem fann sér þó ekki umsvifalausan farveg.

Nánast án afláts skoðaði ég orbitz, dohop, kayak, priceline og fleiri apparöt sem hjálpa manni að komast á milli staða en svo kom að hausinn á mér brann yfir af þessu og ég ákvað að halda mig heima í vitanum.
Já. Mig langaði til stórborgar þar sem ég gæti farið daglega að hitta fína búddamunka og iðkað með þeim hugleiðslu og var langt kominn með þetta masterplan mitt þegar ég allt í einu fann að ég hafði ekki orkuna til að gera Forrest Gump fyrir rækjubátinn.

Þetta er bara ekki rétti tíminn.

Þegar mér varð þetta ljóst þá leið mér skyndilega eins og ég væri heitur pottur að tæmast. Soghljóð í botni sálarinnar þegar vatnið rennur út. Þá finnst manni maður tómur. Enda ekki furða þegar höfuðið er búið að vera eins og skjárinn í Matrix í viku.

Svo kom ég þessu í orð við vin minn áðan og án þess að það væri í beinu samhengi sendi hann mér þennan hlekk af myndbandinu hennar Bjarkar - Wanderlust.... Og skyndilega var andlegt ástand mitt myndgert fyrir framan mig á undarlega nákvæman hátt. Nákvæmlega svona líður mér og hefur liðið undanfarna fjórtán daga. Þetta er merkilegt. Merkilegt að sjá það á mynd. Kallast þetta ekki resonance? Svosum ekki í fyrsta sinn með þessa konu.


(Ef þú vilt horfa á þetta þá er um að gera að leyfa hlekknum að hlaðast í rólegheitunum. Þetta er stór fæll)