Tabasco-Aðvörun-Vondur matur
Nýlega opnaði veitingastaður í miðborginni þar sem áður var Galileo. Þessi staður heitir Tabasco og á að vera einhverskonar mexíkó, eða tex-mex staður. Innréttingarnar eru huggulegar og út á það held ég að eigendurnir "réttlæti" verðlagninguna.
Ég keypti mér burrito og kókglas. Afgreiðslan var fljót. Ég fékk burrito sem var illa útlátið og ilvolgt. Það var fullt af einhverskonar hrísgrjónamauki og kjúklingurinn inni í því var vel tættur og næstum því ekki sýnilegur. Hvergi bar á baunum, lauk né öðru sem vanalega er að finna í slíkri fæðu. Þetta var svona bragðdauft gums og með þessu kom salsa úr dós, gvakamóle og sýrður rjómi ásamt svona 12 nachos flögum.
Þjónnin tjáði mér að máltíðin kostaði 2700 kr þegar ég gekk að afgreiðsluborðinu til að borga. Ég hváði. Vissi reyndar að burritoið, sem er það dýrasta sem ég hef fjárfest í, kostaði 1750 kr, en ég áttaði mig ekki á því hvernig eitt kókglas og eitt djúsglas gátu kostað um þúsundkall. Þá kom í ljós að þjónninn hafði serverað mér "stóru" kókglasi og "stóru" glasi af eplasafa og bað ég þó um hvorugt. Vildi bara Trópí handa unganum og kók handa mér. Meðalstærð. Hann reiknaði aftur og þá fór 500 kall af. Kókið á 300 og safinn á 200.
Eigendur þessa staðar eru þeir sömu og eiga Red Chili. Hefði ég vitað að maturinn þarna er sá sami og í þeim sóðasjoppum þá hefði ég aldrei farið þarna inn. Um daginn keypti ég nefninlega skyndibita í Red Chili hér í vesturbænum og fannst hann svo vondur að ég henti honum eftir tvo munnbita.
Á næsta borði við mig þarna á Tabasco sátu Mörður og Magga. Mörður hafði pantað sér Chili con Carne sem hann sagði óætt og bragðlaust fitujukk. Magga fékk sér samloku sem hún sagði að væri ágæt.
Ég skora á eigendur þessa staðar að girða uppum sig og annaðhvort lækka verðin rosalega mikið eða bæta þennan mat ef þeir vilja ekki fara á hausinn. Það er dónalegt að rukka svo háar upphæðir fyrir vonda fæðu sem er fjöldaframleidd einhversstaðar uppi á höfða (eða hvað veit ég) og klína ofurprís á hana af því maður fær að jórtra á þessu í timburhúsi í miðbænum. Ekki bara dónalegt, það er hreinlega heimskulegt. Ég og sessunautar mínir yggldum okkur öll og fórum að tala um hversu lágkúruleg matarmenning er á þessu landi. Ein helsta ástæða þess að maður saknar þess stundum mikið að búa ekki erlendis, í mínu tilfelli -aðal ástæðan. Þetta var í fyrsta sinn sem við fórum á þennan stað og við förum eflaust aldrei aftur.
Annars heyrði ég um annan mexíkó stað sem var víst að opna við hliðina á gamla 22 á Laugavegi. Ég hlakka til að prófa hann. Hann á víst að vera ágætur.
|