Reykjavík-Los Angeles
Ég hef búið í Los Angeles og ég hef búið í Reykjavík.
Reykjavik og Los Angeles eiga það sameiginlegt að vera bílaborgir. Sumir halda kannski að Reykjavík sé ekki bílaborg, en það er hún sannarlega og íslenska þjóðin elskar bílana sína.
Reykjavík og Los Angeles eiga það hinsvegar ekki sameiginlegt að eiga miðbæ. Það er enginn eiginlegur miðbær í Los Angeles heldur er borgin risastór pönnukaka með engri sérstakri miðju. Þarlenda borgarbúa langar hinsvegar mjög mikið til að eiga svona litla, sæta miðju og því hafa þeir meðal annars búið til The Grove sem er einskonar sætur krúttbær með torgi og verslunargötu. Það þarf nefninlega eitthvað svona sætt og krúttlegt í stórri borg þar sem fólk er svo mikið alltaf í bílunum sínum að keyra fram og tilbaka og bílalaus torg þykja góð. Sérstaklega ef það er gosbrunnur í miðjunni.
Hér í Reykjavíkurborg virðist enginn skilningur vera á þessu. Það sem er krúttlegt er ekki mikils virði af því það er gamalt og ekki á mörgum hæðum með stórum gluggum sem geta keppt við stóru gluggana í Kringlunni og Smáralind.
Það fólk sem tekur ákvarðanir um hvernig Reykjavíkurborg eigi að líta út vanmetur stórlega krúttlegheit. Ef ég væri einræðisherra/frú í þessari borg þá myndi ég setja krúttlegheitin mjög ofarlega á blað og stefna að því að gera þennan miðbæ okkar sem allra krúttlegastan. Jafnvel myndi ég taka Disney bæinn Celebration til fyrirmyndar og hanna krúttlegheitin frá grunni. Það er nefininlega algerlega tilgangslaust að reyna að búa til moll úr miðbænum. Það er ekki bara tilgangslaust, það er fáránlegt. Mollin þjóna sínum tilgangi utan miðbæjarins. Þangað ekur fólk og fær ókeypis bílastæði. Miðbærinn er og á að vera annars eðlis.
Miðbærinn á að vera kósí, með fullt af gosbrunnum, grænu og sætu, fullt af veitinga og kaffihúsum og litlum matvöruverslunum, gistiheimilum, hótelum og mikið af gangstéttum og götulistamönnum og uppákomum og útimörkuðum og lítið af rúntandi bílum en mikið af bílastæðahúsum. Hvað er t.d. inni í Arnarhóli?
Það er stór misskilningur að bissness gangi ekki upp í miðbænum af því verslunarrýmið þar er ekki samkeppnishæft við Kringluna. Hann gengur ekki upp af því miðbærinn er eins og Britney Spears. Sjúskaður og ringlaður eftir að hafa einu sinni verið aðal málið. Hann gengur ekki upp af því honum er illa sinnt og það er ósköp lítið verið að hugsa fram i tímann eða hafa heildarmynd að leiðarljósi.
Miðbærinn í þeirri mynd sem hann er í í dag er eitt allsherjar klúður. Það er enginn sómi að þessum kjarna sem gestir okkar sjá. Hann er vanræktur og illa skipulagður og mikið vona ég að þetta lagist fljótlega.
|