Kynfæraradar
Ég sofnaði við hugleiðsluna í gær. Þegar hún var búin fengum við okkur te og
spjölluðum að vanda.
Tal okkar barst að ástarmálum og hversu mikilvægt væri að halda möguleikunum opnum þegar maður væri á fyrstu stigum sambands.
Að setja ekki öll eggin í sömu körfuna. Maðurinn frá suðurlöndum sagði það afar mikilvægt þar sem íslenskar konur væru svo óvissar með það sem þær vildu og því væri um að gera að hafa nokkrar í takinu þar til eins og ein væri búin að taka endanlega ákvörðun um hvað skyldi gera næst. Hann furðaði sig á þessu, vegna þess að honum fannst sér í lagi ekki stemma hvað það væri auðvelt að fá íslendingana í bólið en erfitt að fá þær sem kærustur.
Þá varð mér nú á orði að kannski hefðu þær ekki áhuga þar sem þessi lausgirðingastefna hans væri eflaust að grafa undan trúverðugheitum og trausti og þar fyrir utan hefðu fæstar konur áhuga á manni sem er kannski á leið úr landi á næstunni. Hann er ekki "A man with a plan" þessi náungi.
Ég sagði honum líka að það hefði borist út einskonar mýta hérlendis um að erlendir menn væru svo hrikalega lausgirtir og af þessu nytu íslenskar konur góðs. Þær hefðu þá sem einskonar "toyboys" þangað til þær fengju nóg og benti honum á að hann væri hugsanlega í þessum flokki. Stefnulaus útlendingur sem slengir typpinu á sér á borðið á mannamótum -og hvað á sjálfstæð kona að gera við svoleiðis mann annað en að hafa af honum saklausa skemmtun um tíma?
Það kom sannarlega á kauða. Hann varð allur hinn pirraðasti og reyndi að útskýra fyrir okkur að allir karlar heims væru svona innstilltir, það væru bara íslenskar konur sem væru svo lauslátar og vildu síðan ekkert þegar á hólminn væri komið.
Það var athyglivert að fylgjast með þessu. Ég fór áður en yfir lauk en viðkomand ýfðist víst allur upp þegar aðrir gestkomandi ræddu þetta við hann og svo fór hann heim til sín með höfuð fullt af nýjum hugsunum, vinklum og vonandi viðhorfum.
Ég er spennt að heyra hvernig málið þróast, en ljóst er að það leiðir ekki til góðs að nota kynfærin sem radar í mannlegum samskiptum.
|