Rennilásinn springur
Hér sit ég, einn argasti og alversti andhófsmaður offitupúkans og horfist í augu við þá bláköldu staðreynd að ég er búin að bæta á mig. 52.2 kg stóð á vigtinni í gær og rennulásinn opnaðist því til staðfestingar. Það er rúmu kílói of mikið til að dvergurinn sé innan skekkjumarka hégómans. Nú skal bremsað.
Grillhúsið, Ameríski stíllinn og hinar ýmsustu rjóma og sykurafurðir verða að bíða mín framyfir áramót. Tjah... já... talandi um áramót. Eftir áramót opnar ný heilsuræktarstöð hér á Seltjarnarnesi og ég mun verða með þeim fyrstu á brettið. Ég hef aldrei haft gaman af því að vera þarna í Laugum að svitna með pungsveittum pöpulnum. Það er eitthvað sjoppulegt við þann stað. En þegar nýji staðurinn opnar hér í skattaparadísinni á nesinu, já, þá stíg ég á stokk. Byrja daginn á að bruna með ungann á Mánabrekku og svo verður tekið á því í gymminu með gömlu heildsölunum og ofurgrúmuðum afkvæmum þeirra. Þjálfunarbúðir Sjálfstæðisflokksins, Davíðsæskan, Mustapha Mond og MaggaBest. Ó, þá verður veröldin ný og góð!
|