Mysingur og æsingur
Persónulega Fréttabréfið
Fór í Nóatún til að kaupa Danskt rúgbrauð og tunsalat. Sá konu við kassann sem ég hafði ekki nægilega orku til að heilsa. Stundum er það bara þannig. Hún sá mig samt. Og vildi tala. Enda langt síðan ég hafði séð hana. Ekki gaman. Hún sagði "Rosalega er langt síðan ég hef séð þig" og ég hugsaði supplies supplies og það marraði í heilastöðinni sem hefur að gera með félagsleg samskipti. Reyndi samt að bera mig mannalega og muldraði eitthvað. Ég er ömurlega léleg í því að gera mér upp skap. Gæti aldrei farið í pólitík.
Fór til frk Himmer í vinnustofuna að hjálpa til með fossapallíettur. Himmer ætlar að setja fossinn sinn á Kjarvalsstaði á morgun. Við hlustuðum á i-tunes útvarp. Mikil snilld þetta i-tunes útvarp. Þar má velja allskonar skemmtilegt. Meðal annars talútvarp og leikrit og jazz og fleira og fleira fínt. Líka hugleiðslu.
Ég hef komist upp á lagið með það að hlusta á sjálfshjálpar og pepp efni þegar ég laga til. Er t.d. að lúppa The seven habits of highly effective people þessa dagana. Það er ekki galið. Onei.
Hvað á maður annað að gera við eyrun á sér þegar maður lagar til?
Vitaskuld er hægt að hlusta á Iggi Pop, Underworld eða Abba en það gerir manniggi að betri manni. Bara æstari manni sem tekur hraðar til. Nóg um æsing. Mitt líf er á köflum einn standandi æsingur. Svo mikill að manni verður hreinlega nóg um. Nei. Æsingur er ekki það sem ég þarf. Öllu heldur andlegheit og mótíverandi pepp og kannski smá mysingur.
Takið eftir þessum dansandi börnum á Mysingnum. Þau tákna áhyggjuleysi og afslöppun.
Fór í nudd í dag hjá vinnustaðanuddaranum Gúrú Úrvinda og fann hvað hausinn gat ekki verið kyrr þó að þessar mjúku, staðföstu og þéttu hendur færu um bakið á mér. Hún sagði mér að nuddarar færu í hugleiðslutíma. Þeir þurfa jú að vera andlega á staðnum við iðju sína. Meira en aðrir. Enda yfirleitt ekki lætin í kringum þá, þessar elskur. Hugurinn minn þeystist út um víðan völl. Stundum eins og hraðspól. En ég fann væntumþykjustrauma renna úr bakinu á mér í hendur nuddarans. Langaði mest af öllu til að standa upp og faðma hana. Hún er svoddan elska.
Birtan gerir mér ekki nógu gott svona fram eftir kvöldi. Ég á erfitt með að slappa af og falla í ró. Það framleiðist ekkert melantónín, eða hvað það heitir nú, í líkamanum mínum og því er ég á of hröðum snúningi. En þetta lagast. Það lagast alltaf allt.
Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.
Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.
|