Ökudrama
Það keyrði maður utan í skódann minn í morgun. Hann var á mótorhjóli. Ég beið þess að beygja til vinstri inn Lönguhlið frá Miklubraut og þá bara allt í einu kemur maður og svíngar fyrir mig. Við vorum bæði á svona 15 km hraða, ef það. Hann aulaðist eitthvað út á hlið, ég hinkraði pirruð á meðan hann reyndi að rétta sig við og þegar hann var búinn þá rétt náði ég ljósunum inn í Lönguhlíð.
Viðbrögð mín við þessari uppákomu komu mér sérlega mikið á óvart. Ég varð fyrst og fremst móðguð yfir þessu svínarí (ég var í tútal rétti) og hugsaði bara um að komast í vinnuna asap. Keyrði bara af stað án þess að hugsa um hvort eitthvað hefði komið fyrir bílinn minn. Þegar ég svo kíkti þá sá ég rispur á stuðaranum og örlítla dæld. Eitthvað sem ég get lagað með smá þvotti og einum kossi. En mikið ósköp var ég undarleg að bregðast svona við. Þetta ætla ég ekki að gera aftur.
Í kvöld ók ég svo fram á róna sem lá "dauður" í Þingholtsstræti. Vinur hans, annar róni í grænni úlpu, var með honum og reyndi að beina umferð í burtu svo fólk myndi ekki aka á áfengisdauðan félagann. Kardimommudroparnir lágu í götunni.
Grænstakkur kom með hor og skegg og ég skrúfaði niður rúðuna. Hann muldraði eitthvað um að hann passaði sig sjálfur. Ég hringdi í lögguna og bað þá að ná í Gúnda Svein sem lá þarna með bumbuna út í loftið. Áður en þeir komust á vettvang voru vegfarendur, 2 artí konur um þrítugt og þrír sextá ára dauðarokkarar, ásamt Sigga, farin að reyna að drösla manngreyinu upp á gangstétt. Grænstakkur ákvað að leggjast líka og láta toga svolítið í sig. Þetta varð skemmtilegt sjónarspil. Skömmu síðar kom löggan eflaust og lét þá kammerata sofa úr sér.
|