fimmtudagur, maí 24, 2007

Dekadent dama sem er gefin fyrir drama

Hér með játast það að sú sem lók þennan ritar er sjúklega dekadent.

Ég elska að borga fólki peninga fyrir hverskonar persónulega þjónustu, hvort sem hún snýst um að nudda á mér bakið, klippa á mér hárið, smyrja á mig kremum, plokka á mér augabrúnirnar, sprauta á mig húðlit eða taka til heima hjá mér. Nú veit ég að margir hugsa... "já... hvað með heimsendan pilt" og það er best ég kæfi þá spurningu bara í fæðingu. -Nei, það myndi ekki hvarfla að mér. Eini glæpurinn við vændi er að kaupa það að mínu mati. En nánast alla aðra persónulega þjónustu er ég til í að greiða fyrir.

Oft hef ég haldið að í mínum fyrri lífum hefði ég ýmist verið skakkur smali eða yndisfögur drottning, en núna eru smátt og smátt að renna á mig tvær grímur. Úrkynjaður prins í támjóum skóm og þröngum silkisokkabuxum er byrjaður að skjóta upp kollinum í minni skyggnu vitund. Takmörkin fyrir því sem honum dettur í hug að láta aðra gera fyrir sig gegn þóknun eru engin. Engin.