mánudagur, janúar 15, 2007

Lifað á brúninni

Ja hér hvað mar er villtur. Bara vakandi kl tvö um nótt!

Sá stórgóða bíómynd áðan. Stranger than fiction. Mjög mjög mjög góð. Emma oflék samt. Dustin finnst mér æði. Söguþráðurinn var yndi og skilaboðin þá sérstaklega.

Ég er með gagnaugnaverk og sjálf augnlokin eru þurr að innan. Hugsa sér ef maður hefði augnlok á gagnaugnum. Það væri skrítið. Svo myndi maður opna þau og þá myndi sjást inn í heilann líkt og tjöld væru dregin frá leiksviði. Hugsanirnar myndu ferðast um eins og umferðin í myndinni Metropolis e. Fritz Lang. Loftför á hlykkjóttum loftfarateinum. Þær myndu þekkjast á litbrigðum og úr háskólum heimsins væru útskrifaðir hugsanafræðingar. Auðvitað myndu allir ganga með húfur ef við hefðum gagnaugnlok sem við þyrftum að blikka. Þetta væru sérstakar húfur og gagnaugnaskjól, sérstaklega hönnuð þannig að það væri hægt að blikka undir þeim.
Í sumum löndum væru húfurnar bannaðar. Og í öðrum löndum þætti það flott að ganga aldrei með húfur af sömu ástæðu og Hollendingar nota ekki gardínur; Við höfum ekkert að fela.

Í gær hitti ég netkunningja mína. Það var skemmtilegt. Gaman þegar rafheimamenn mætast í kjötheimum. Annar þeirra var í bol með mynd af mús framan á. Frægri mús. Sjálf var ég í bol með mynd af allsendins ófrægum apa framan á. Hann er með gleraugu þessi api minn. Eins og svo margir aðrir apar.

Þegar ég var barn hafði ég gaman af Ríó Tríó og Savannah tríó. Fannst lagið um Hríseyjar-Mörtu sorglegt. Enda er það sorglegt. Hvar eru íslenskar vísnahljómsveitir í dag?
Af hverju stofnar enginn vísnaband? Þau eru svo mikið fyrirtak.

Og af hverju álykta sumir að þunglyndi sé gáfumerki?

Og hvers vegna var þessi sem Pálmi Gunnarsson bað að vera kyrr, ekki kyrr?

Frjálshyggjufrændinn minn er búin að fá sér eðallén sigurgeirorri.com
-áfram frjálshyggja!