sunnudagur, febrúar 05, 2006

Guð býr í garðslöngunni, amma...

Þegar við deyjum þá verður allt svart. Svo út úr myrkrinu, kemur þessi líka gríðarlega stóra garðslanga full af ljósi. Hún sogar mann inn í sig og svo brunar maður á fleygiferð upp garðslönguna þar til komið er í þoku. Þoka þessi er ský. Ský af því nú ertu kominn til himna.

Á himnum lifa allir á annari tíðni en hér niðri. Þar heyrum við hljóð eins og hundar, sjáum eins og kettir, hreyfumst eins og ljós og tölum saman eins og hvalir yfir hundruði kílómetra. Það er fínt að vera á himnum. Þar kúkar enginn og allir eru jafn klárir.

Hinsvegar... ef þú skyldir nú lenda í helvíti, þá tekur ekki nein sérstök skemmtun við. Í helvíti eru allir alltaf ófullnægðir. Flestir eru með harðlífi og öll skynfæri eru daprari en í jarðlífinu. Þar sjá menn eins og moldvörpur, finna lykt eins og fiskar, heyra eins og kolkrabbar og hreyfa sig líkt og feitir ánamaðkar. Í helvíti eru allir sí kvartandi. Alltaf.

Leiðin að helvíti er ekki í gegnum garðslöngu heldur ryksugu. Dust to dust.