miðvikudagur, janúar 12, 2005

Minna útvarp, meiri friður

Já, ég er feginn því að það eigi að fækka útvarpsstöðvum. Þetta er bara rugl að hafa svona margar stöðvar. Maður fyllist valkvíða. Ég hlusta mest á gufuna. Það er góð stöð, óþarfi að vera eitthvað að bæta við. Svo hlusta ég bara á diska og dánlód þess á milli. Hvenær er t.d. PJ spiluð á þessum stöðvum, eða Nick Drake eða Bonnie Prince. Þau eru allavega ekki á neinum pleilista.

Skil ekki hvað fólk er alltaf að hamast við að stofna útvarpsstöðvar á Íslandi. Og sjónvarpsstöðvar. Hvað þurfa strumparnir marga fjölmiðla til að hafa það fínt? Og mörg moll? (á eftir að ræða innrás moll kúltúrsins á Ísland).

Svei. Það er ekki eins og það búi ein milljón hérna. Nei. Við erum últra, míkró, oggu, poggu, pínku, ponsu lítil þjóð og alger óþarfi að vera með svona marga fjölmiðla hérna. Svo er heldur ekkert smart að vinna við fjölmiðlastörf og þveröfugt við það sem margir halda þá er þetta ekkert glamúrus. Þeir sem vilja vinna kauplaust fá vinnu við svona. Og þó það sé hvergi skrifað þá felst hluti af "laununum" reiknast í stoltinu sem fylgir því að segjast vinna við fjölmiðla. Sérstaklega hjá unga fólkinu. Nú svo á fólk líka að þakka fyrir að fá að vinna við eitthvað jafn skemmtilegt.

Á Íslandi er nefninlega svo mikið snobbað fyrir starfstitlum og þetta er eitt af því sem þykir ásættanlegt. Hver man t.d. ekki eftir "stjörnuliði" Skjás Eins... sælla minninga. Og borðanum með andlitsmyndunum af þeim sem eitt sinn skreyttu bæinn. Hér höfum við okkar Hollívúdd selebba. Og þegar þeir eru ekki að taka viðtöl þá eru þeir sjálfir í viðtölum. Þetta vita allir.

Ég man þegar ég bjó í Köben, og maður var að tala við einhverja manneskju í fyrsta sinn, þá var ekki byrjað á að spyrja -Hvað geriru? Nei. Maður spurði -Hvar býrðu? Og svo var farið út í það að ræða kosti og galla búsetunnar. Ekkert minnst á hvað manneskjan "gerði" fyrr en eftir frekari viðkynningu eða lengri tíma. Segjum, í fimmta sinn sem maður hitti viðkomandi. Kann betur við svoleiðis samskiptatækni.

Fólk ER nefninlega ekki starfið sitt. Það er svo mikið meira en það. Þið sem hafið lesið ævintýrið um Svínahirðinn vitið um hvað ég tala.

Nú legg ég til að við breytum um stefnu: Flott er að spyrja fyrst um áhugamál eða svoleiðis. Nú eða ástríður. "Hver er svo ástríða þín, Þorkell?" eða "Ertu að hugsa sérstaklega mikið um eitthvað málefni þessa dagana?" eða "Hver er þín uppáhalds fæða". Já... eða "Hvað færðu svo í laun þarna á xxxx?" og "Hvað áttu þá mikið eftir að þú ert búin að borga skatta og gjöld?"

Einnig má færa sig út í próvókerandi kvíar:

"Hefurðu verið flengdur í kynlífinu?" eða "Þú segist vera frjálshyggjumaður en samt ertu ríkisstarfsmaður, er ekki þversögn í því ?" (ef vera skyldi að maður færi í boð með Dabba) eða
"Ertu með einhverja skrítna sjúkdóma?"...

Já! Það eru margar leiðir til að spæsa þetta eitthvað upp. Byrjum í dag!