mánudagur, nóvember 22, 2004

Dagur Sigurðarson og meðalið sem helgar tilganginn

Þennan vafasama textabút sauð ég saman (úr netheimildum) fyrir teiknistuttmynd sem við gerðum í skólanum. Verkefnið tengdist ljóði eftir Dag, og auðvitað brugðum við á það ráð að gera teikinmynd enda ljóðin hans rosa beisikk og myndræn. Eníhú, þetta var lesið upp áður en myndin hófst:

Dagur Sigurðarson fæddist árið 1937. Hann var launsonur eins helsta virkjunarfræðings þjóðarinnar, Sigurðar Thoroddsens, og móðir hans var Jakóbína Tulinius þannig að Dagur var af góðum og borgaralegum ættum á íslenskan mælikvarða, en sjálfur fyrirleit hann allt borgaralegt og var sannur pönkari í eðli sínu.
Dagur var það sem maður getur kallað miðbæjarskáld og hélt sig aðeins innan við 101 Reykjavík, löngu áður en það komst í tísku. Fyrir honum náði Reykjavík varla inn fyrir Hlíðarnar, en sagt er að hann hafi aldrei verið alveg öruggur með sig austan Norðurmýrar, Klambratúns og Öskjuhlíðar.

-Dagur dó hjá syni sínum í Svíþjóð árið 1994.

(svo sannarlega óöruggur fyrir utan póstnúmerið)

...Og í morgun fór ég að hugsa um fólk, eins og þessa borgaralegu konu í Happieness, sem er alltaf að safna reynslu til að geta orðið þroskaðara og merkilegra og dýpra til að geta skrifað þroskaðar og merkilegar og djúpar bækur en svo skrifar þetta fólk kannski aldrei rassgat en er bara í því að "prófa sýru og sódómíu" fram á fimmtugsaldur. Jú, gefur kannski út eina slappa ljóðabók en lifir svo bara í rugli og öfugsnúningi við eigið vel grúmaða borgaralega eðli. Hvað er það? Er það ekki frekar afleitt?
Er ekki bara betra að vera borgaraleg/ur og skrifa sín borgaralegu ljóð sem aðrar borgaralegar sálir geta glaðst yfir? Þau geta verið falleg. Borgaraleg ljóð um upprúllaðar sykurpönnsur á hvítum diskum. Labbitúra í kringum tjörnina og húsgagnaburð.

Það er eitthvað svo skrítið þegar fólk syndir gegn eðli sínu til að vera eitthvað sem það er búið að flokka sem meira kúl. Þá er eins og það sé í lánsfötum. Leigusmóking. Eins og allur dagurinn fari í það að vera fyrsti gesturinn í partý hjá fólki sem maður þekkir eiginlega ekki neitt.
En svo er "eðli" náttúrlega ekkert staðnað og áþreifanlegt fyrirbæri. Eðli getur breyst og snúist á einni ævi. Kannski að flottasta liðið sé bara það sem er með púlsinn á eigin eðli eða óeðli og lifir svo í samræmi við það í stað þess að rembast þetta alltafhreint...