sunnudagur, nóvember 09, 2003

LSD, Árásarhvötin og Kali

sunnudagspælingar

(tekur c.a. 3-4 mín að lesa)

Var að lesa grein í Ganglera, (sem er bæðevei ansi gott blað), um ofskynjunarlyf og hætturnar sem fylgja því að reyna að öðlast "andlega sýn" í gegnum ofskynjunarlyf.
Aldous Huxley, (sem var mikill spekingur og rithöfundur), prófaði svoleiðis lagað og ályktaði að þetta væri sko ekki fyrir hvern sem er. M.a. kom hann inn á þann punkt að maður tæki áhættuna á því að losa úr viðjum bælda árásarhneigð sem er eitthvað sem allar manneskjur gera, þ.e. að bæla niður meðfædda dýrslega árásarhneigð... Hann stúderaði reyndar fréttir, slúður og fleira í annari ritgerð þar sem hann taldi þetta fídusa sem fólk notar til að fá kikk út úr neikvæðri orku... En allavega, með því að taka lsd eða sveppi eða eitthvað svoleiðis, getur maður átt það á hættu að sökkva niður í helvíti sinnar eigin undirvitundar og í óttanum getur skyndilega losnað um þessa árásarhneigð sem allir bæla og það getur leitt til meiriháttar skelfilegra afleiðinga.



Þetta með bældu árásarhvötina fékk mig til að pæla í því að það er kannski einmitt af því við bælum þessa hvöt niður að við getum fúnkerað í samfélagi við annað fólk. Maðurinn á sér nefninlega enga aðra raunverulega óvini en sína eigin. Boðorðin 10 ganga út á þetta. Einskonar gædlæn fyrir það hvernig við eigum að fara að þessu. Önnur dýr þurfa að óttast dýr sem eru ofar þeim í pýramídanum, en við erum efst og gerum okkur þessvegna óvini úr hvort öðru.

Árásarhvötin er að sjálfssögðu ekki alveg niðurbæld, en svona frá degi til dags þá reynum við að kæfa þessa orku. Hún kæfist samt aldrei almenninlega heldur poppar reglulega upp, eða suðar jafnt og þétt undir yfirborðinu í meira eða minna mæli, allt eftir hæfileika fólks til að losa um þetta eða stjórna þessu í takt við afleiðingar af uppeldi og umhverfi. Væri ekki flott ef manneskjur gætu leitt þessa bældu orku inn á uppbyggilegar brautir þar sem henni væri veitt útrás? Í stað þess að slúðra og baknagast og fara í stríð og leggja í einelti þá gætum við farið með þetta í einhverja útrás sem væri bara uppbyggileg. Þetta hefur náttúrlega verið reynt með ýmsu móti en greinilega aldrei þannig að það hafi tekist að losa okkur við ofbeldi og ógeð.



Merkilegt líka þetta með þá blekkingu að konur hafi ekki árásarhneigð. Ég hef lesið ansi fína bók sem heitir Women who run with wolfes study of the wild woman archetype. Þar er rithöfundurinn m.a. mikið að stúdera hvað það getur komið konum í mikil vandræði að bæla niður þessa sterku hvöt. Þá erum við að tala um að konur, til að vera eins og konum sæmir, mega ekki öskra, vera frekar og reiðar og fá útrás. Margir karlmenn eru svo undir þeirri blekkingu að allar konur séu góðar, eða svona madonnur og hórur, hence ítalía... Allar konur eru hórur nema mamma, hún er heilög...

Mýturnar, eða mýtuleysið, og karldóminasjónin í trúarbrögðum hefur líka skemmt slatta fyrir okkur öllum.
Einu sinni (fyrir kristini) voru til ósköpin öll af allskonar gyðjum sem báru með sér bæði þessa stererótýpísku kvenlegu eiginleika en einnig árásarhvötina. M.a Kali, eða Dúrga, sem er indversk hindúagyðja og hún er bæði gyðja eiðileggingar og fæðingar. Maður hefur séð myndir af henni með blóðuga mannshausa um leið og hún er að fæða, svo er það náttúrlega Aþena sem var gyðja hernaðarstrakedíunnar og til hennar báðu hermenn áður en það var farið í stríð, Jóhanna af Örk er reyndar ein af mínum uppáhalds og raunveruleg þar að auki, en hún lagði jú Englendinga að velli með aðstoð síns guðs og sinna hermanna, og Díana eða Artemis, sem var veiðigyðja og margar fleiri.
Fólk var dags daglega meðvitað um þessa eiginleika í eðli kvenmanna og í stað þess að vera alltaf eitthvað að vera hræddir við konur þá sóttu karlmenn styrk til þeirra og fengu kraft úr þessum brunnum.



Í dag finnst mér þetta vera orðið svolítið skrítið stundum en við erum vonandi á réttri leið. Það er frekar fyndið að margir átta sig ekki á því að kvennhreyfingin eða hið svokallað kvenfrelsi, var eiginlega afleiðing þess að karlmenn fóru í seinni heimstyrjöldina. Einhver varð að vinna störfin þeirra svo húsmæður og ógiftar konur voru allar kallaðar út af heimilunum til að fara að vinna hin og þessi störf. We can do it plakatið var hengt upp um allt og út um allt og konurnar þustu af stað til að fara að vinna. Svo þegar stríðið var búið og karlarnir komu heim, þá sátu þeir í súpunni. Konurnar vildu ekki fara heim aftur.
Gerð voru ósköpin öll af Film Noir myndum sem sýndu Femme Fatales sem reyktu og gengu með byssur og voru eins og karlar (sjálfsstæðar og árásarhneigðar) en á endanum tókst alltaf að "lækna" þær og þær enduðu heima í hvítum kjól við eldavélina. Tókst í bíómyndunum en ekki í raunveruleikanum og við erum enn að reyna að jafna þetta út. Gaman að þessu.

Mikið hlakka ég til þegar og ef heimurinn verður einhverntíman harmónískur. Ég held að lykillinn að því liggi að stórum hluta í samskiptum og samstarfi kynjanna og heilbrigðri viðurkenningu á árásarhvötinni og leiðum til að umbreyta henni í aðra orku sem er svo hægt að leiða inn á betri brautir....

segðu mér endilega hvað þér finnst... eða ekki