Ég var að missa lítinn frænda minn úr krabba og ætla ekki að segja mikið um það annað en að ég held að það hafi átt sér stað hjá mér hugarfarsbreyting.
Ég hef of lengi haft (í vissum tilfellum) tendens til að hugsa að glasið sé hálf tómt en ekki hálf fullt. Stundum hugsa ég aftur í tímann og mig hryllir við æsku minni og stundum velti ég mér upp úr þeim fjanda þegar ég hef ekkert betra að gera. Er kannski búin að drekka mikið kaffi og vaka lengi eða sofa of lengi... hvað sem er og á kaffi eða ekki, ég og fleiri höfum tendensa til að vorkenna okkur yfir hinu og þessu.
Sitja saman, horfa alvarlega í augun hvort á öðru og jarma... "Ég var miðbarn, ég var elst, ég var yngst...ég fékk ekki nóg pepp, ég var alltaf ein/einn heima, ég kunni ekki að lesa, ég læstist úti, þurfti að passa bróður minn, mamma erfið..." "Pabbi fullur, alltaf að flytja, fluttum aldrei, amma dó, amma lifði..." "Jarm...." "Ég lagði í einelti, ég var lagður í einelti, ég lamdi einhvern, ég var laminn..."Jarm"... Þetta er svona sport þessarar kynslóðar. Að sálgreina sig sjálf og vorkenna sér yfir því að allt skuli ekki vera, eða hafa verið fullkomið. Þó erum við flest ef ekki öll afsprengi einhverrar millistéttar sem hefur alltaf átt nóg af mat í ískápnum og það geta sko ekki allir sagt. Ég á persónulega vini sem hafa... æi... fólk sem hefur þurft að flýja út af stríði og svona... bretar sem voru barðir af kennurum með leðurólum... os.frv... og ekki pípa þau.
Málið er að þó að einhvern kúk hafi hent þegar maður var krakki þá hefur maður það bara helvíti gott í dag. Þetta er allt spurning um viðhorf. Er glasið hálf tómt eða hálf fullt? Það er alveg hægt að gera helling úr einhverju krappi sem er löngu liðið og láta úr þessu verða stíflur sem gera það eitt að verkum að maður er vanþakklátur og nýtur ekki þess sem maður hefur af; hæfileikum, vinum, ást, reynslu, os.frv... Það sem er að renna upp fyrir mér er TIL HVERS? Erum við svona ofdekruð? Eða með svo mikla sjálfseyðingarhvöt að það má ekki leyfa sér að njóta bara til fulls og vera 100% sátt og ánægð? Ég veit það ekki og eiginlega skiptir það ekki öllu akkuru. Ég veit það bara og hef áttað mig á því að ég hef það gott, ef ekki betra en gott og ég strengi þess heit að hætta algerlega að væla. Erfiðleikar, gamlir eða nýir, eru hvort sem er bara partur af prógramminu og ég get alltaf verið viss um að það koma fleiri, þessvegna ætla ég ekki að "orna mér" við einhverja gamla þegar þeir eru ekki einu sinni annað en hálf hljóðlaust bergmál löngu liðinna atburða. Að sama skapi eru þessir svokölluðu "erfiðleikar" sem maður rambar á í daglega lífinu bara óttalegt pínöts... Ég er endalaust heppin með fjölskyldu, vini og vandamenn, ég er rétt sköpuð af skaparanum, ég er ekki illa gefinn, ég bý hér en ekki í Úkraínu... þetta er allt, allt, allt mjög mjög gott.
mánudagur, nóvember 17, 2003
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|