þriðjudagur, október 21, 2003

Í nótt dreymdi mig að levelarnir í raunveruleikanum tækju á sig lit. Það er frekar erfitt að útskýra þetta en ég ætla samt að reyna.

Sjáðu fyrir þér svona "grid" eða net sem er notað til að skilgreina rými. Inni í þessu rými var heildarmynd af borginni og inni í því sáust allskonar svið tilverunnar í ólíkum litum. Eins og t.d. ástin, vinnan, persónuleikinn út á við, varnirnar, áhugamálin, samskiptin við fjölskylduna, vinirnir, ferðirnar sem maður fer yfir daginn (eins og t.d. í vinnuna eða eitthvað... bara svona rútínur). Sviðin lögðust og fléttuðust saman í örþunnum slæðum eins og lög inni í kristal. Þetta var alveg stórmerkilegt á að líta... óútskýranlegt með orðum.
Allt í einu hurfu allir litirnir nema einn og bara eitt svið í tilveru minni var litað ljósbláum, eða rafbláum lit sem ég sá skýrt sem aldrei fyrr. Eins og að í allri þessari hringiðu atburða hefði ákveðið munstur endurtekið sig svo oft að það lá sem vefur í gegnum tilveru mína og hefti förina... og ég hafði aldrei séð það áður.

Stórmerkilegt alveg...

Ég þarf í raun enga skýringu á þessum draumi. Hann er bara "myndgerð" endurspeglun á því sem er að gerast innra með mér... en það er ansi mikið í augnablikinu. Atvikin reka hvort annað áfram, eitt leiðir af öðru, jarðskorpurnar skerast inni í Möggu og Ben Harper spilar blús undir þessu öllu saman.