Miðvikudagurinn mikli
Vaknaði hress en aðeins of seint í morgun miðað við það sem var planað. Svaf í það minnsta vel. Ryksugaði og henti kjúkling inn í ofn. Grillaði hann og sauð grjón og hringdi í Orra sem kom hjólandi með hrásalat og grænmeti. Við ræddum málin og hann skrafaði um handritið sem hann er að skrifa. Við erum að hugsa um að gera stuttmynd þegar ég kem aftur heim frá Kaupmannahöfn. Bara eitthvað spontant og skemmtilegt. Hann er með allar græjurnar þannig að við ættum að geta haft gaman af þessu.
Hlustuðum á; Bridge over troubled water (S & Garfunk), 50 way´s to leave your lover (Simon), Nothing Compares to you (Shinead), Okkar Nótt (Sálin), Never Fall in Love Again (Elvis Costello), She (Elvis Costello), Who By Fire (Leonard Cohen), Þrek og Tár (Erla Þorsteins og Haukur) ooogggggg...... Nature Boy (Georg Benson).
Hjóluðum niður á Vegamót og drukkum kaffi og þar sá ég nafnið á þessu bloggi mínu í Veru þar sem það var á lista yfir vinsæl blogg. Töluðum um lokuð og opin kerfi. Hunda sem eru smalahundar með tilgang. Leikina sem fólk leikur við hvort annað í samskiptum (áráttuhegðun). Æðri markmið í lífinu og að hafa þema í bókaútgáfum sínum eða skrifum. Hjólaði heim á leið og þá hringdi síminn í vasanum. Í honum var Magga Vaff sem bað mig um að hittast á kaffihúsi og af því við erum búnar að plana þetta svo lengi þá sneri ég við og fór á Sólon. Þar var léleg stemning. Allavega svo skrítin að við ákváðum að fara frekar á Prikið. Töluðum um ótta við tilfinningalega nánd, félagsfræðina sem hún er að læra, ljósmyndunina sem ég er að fara að læra, strák sem heldur að hann sé á móti tísku en er samt að eltast við hana, eitt áfram og tvö afturábak, hvað það er gott að fara út að hlaupa og margt fleira.
Ég drakk heitt vatn með sítrónu. Hún kaffi.
Svo fór hún að vinna og ég hljólaði heim og fór að skrifa grein um Williamsburg hverfið í New York með allskonar frávikum. T.d. tala við Gneu vinkonu sem býr í London sem hringdi í mig svo við gætum rætt stórmálin.
Höfum verið vinkonur síðan við vorum 14 ára og þekkjumst fram og tilbaka. Hún fagnar jarðskorpuhræringunum innra með mér. Maður lærir svo lengi sem maður lifir. Það er svo gott að hafa átt sama vininn lengi. Gnea er yndislegur vinur. Félagsþörf minni var fullnægt í dag.
Núna er ég að tala við bre.klaki og reyna að ná mér í tónlistarforritið Reason 2.5 en DCC er ekki að hleypa mér inn af einhverjum ástæðum þannig að ég er að hugsa um að fara bara upp í rúm með tebolla og hlusta á meiri skemmtilega tónlist og skrifa og lesa og fara svo að sofa til að vakna á morgun inn í nýjan dag í borginni, litlu sætu borginni sem mér líður svo skrambi vel í (er semsagt að jafna mig... takk fyrir öll rafknúsin).
miðvikudagur, október 22, 2003
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|