miðvikudagur, október 29, 2003

Jesús minn, það tala allir dönsku hérna....

Örn kom og sótti mig út á flugvöll. Rosalega góð tæming af því hann þurfti ekki að bíða í eina mínútu... kom labbandi á móti mér um leið og ég kom út um hliðið. Svo tókum við eina af þessum nýju lestum hérna. Köben er að verða eins og Bladerunner town... svona lestarfarslega séð.

Þrusuðumst heim til hans og fórum svo á kaffihús á Österbro að borða yndislegan mat og tala um allt á milli himins og jarðar. Örn er að klára mastersgráðu í heimspeki og hefur ótrúlega gaman af því að deila pælingunum og ég hef ótrúlega gaman af því að taka á móti. Hann útskýrði fyrir mér stefnuna sem er t.d. í gangi í Matrix myndunum. Það er Lacans psycho analysis, eða útgáfa Lacans af Freaud.... og póst strúktúralismi í vasaútgáfu... Gengur semsagt út á það að við erum og skynjum ekkert nema symbol... orð, myndir, hljóð og það sem þau tákna eða tákna ekki fyrir okkur. Að það sé ekki til neinn kjarni í okkur... og það að hugsa um kjarna sé bara afvegaleiðandi. Lífið og mannskepnan er á endalausri hreyfingu, stanslausar breytingar, ekkert kjurt, aldrei. Að við höfum ekkert frjálst val af því það sem við veljum er alltaf afleiðing af röð atburða sem á undan eru gengnir og eru háðir því umhverfi sem við erum stödd í hverju sinni... Það sem við "veljum" síðan er kannski ekki endilega beint val, heldur útilokun á öðrum möguleikum. T.d. þegar við löbbum yfir götu, þá erum við búin að velja það, og með því að labba yfir hana þá skiljum við eftir möuleikana hinu megin við götuna og þeir eru ekki lengur til af því um leið og við göngum yfir þá gerir tíminn það að verkum að möguleikarnir sem voru fyrir hendi, hinum megin við götuna breytast... af því það breytist alltaf allt með hverri sekúndu sem tifar. Að reyna að halda í þá hugsun að það sé til einhver kjarni innra með okkur er í sjálfu sér óskhyggja eftir stöðugleika en ekki raunveruleiki.

Eftir að hafa talað af okkur hausana fórum við heim til hans aftur og svo í bíó að sjá Kill Bill sem var ferlega skemmtileg. Rosa mikið splatter og rosa gaman að sjá "Girls are strong" í bíómynd. Sem aðalhetjurnar en ekki einhver bimbó side kick... Uma lekker... þó að það geti ekki verið gaman að heita Uma.

Trítluðum upp Istedgade sem er ekki lengur heimili sora og sódómu heldur einskonar blanda af dópistum, klámbúllum, trendí skóbúðum og kaffihúsum. Furðuleg gata svo ekki sé meira sagt. Skrítið hvernig þessi klámbylting sem varð hérna fyrir 30 árum hefur intergrerast í þetta samfélag. Fólki finnst þetta bara ekkert mál... Skóbúð, klámbúð, rakarastofu klámbúð, kaffihús, fatabúð, hóruhús, matarbúð, apótek, sauna, skóbúð... Allt fyrir alla, konur og kalla.

Fórum heim og ég sofnaði eins og grjót... vaknaði svo í morgun og fór í bað. Þegar ég tók tappann úr baðinu þá flaut vatnið allt út á gólf, innskórnir eins og litlir bátar, náttfötin mín á floti og ég fékk vægt sjokk. Eins gott samt að þetta flaut ekki fram á gang. Örn kom með bala og fægiskóflu og sópaði vatninu ofan í klósett, gleymdi að segja mér að hleypa hægt úr baðinu... gamlar pípur. Svo gerði ég kaffi en það flæddi upp úr könnunni og Örn brenndi mjólkina. Við lifðum þetta samt af... Átum grillað brauð og jöfnuðum okkur... Núna erum við enn að masa um heimspeki og sólin skín og ég er að fara að hitta Sólveigu Sandnes vinkonu mína sem ég hef ekki hitt í 3 ár. Hún er poppari.

Það er skrítið að vera hérna. Ég bjó hérna í 4 ár en hef ekki komið hingað nema tvisvar sinnum síðan... Rataði varla í gær, en það kemur örugglega mjög fljótlega. Kann allavega ennþá fína dönsku.