mánudagur, október 27, 2003

Þetta er brot úr grein sem ég skrifaði fyrir næsta eintak Húss og hýbíla... Fór heim til Agzilla og þar var fjör...

...Þegar ég fór út úr leigubílnum minnti bílstjórinn mig föðurlega á að fara nú varlega og það var víst ekki að ástæðulausu því Bushwick hverfið er víst alræmt glæpahverfi.
Þegar ég þrýsti á dyrabjölluna birtist Aggi í glugga langt fyrir ofan mig, kallar ert þú blaðamaðurinn!? og hendir niður útilykli sem er vafinn inn í íþróttasokk.

Rammgert og risastórt húsið hefði eins getað tilheyrt útibúi listaháskóla þar sem annað eins rými er sjaldan notað undir íbúðir. Gangarnir eru langir og þar er hátt til lofts og vítt til veggja. Þegar Aggi opnar dyrnar blasir síðan íbúðin við í öllu sínu veldi og orðin; Vá, en ótrúlega stór íbúð! hrynja ósjálfrátt af vörum blaðamanns.
Ekkert aðskilur innganginn, eða forstofuna, frá “stofunni” og eldhúsinu annað en stór útifataskápur og súla sem nær frá gólfi og upp í loft, jú og svo lítill stafli af glerplötum sem þjóna örlitlum skilrúms tilgangi.