miðvikudagur, júlí 09, 2003

Jæja. Um að gera að skrifa um eina hraðskreiðustu 3 daga sem ég hef lifað.

Á laugardaginn síðasta fór ég ásamt 15 manns í river rafting ferð niður Hvítá. Það var alveg stórkostlega gaman og hápunkturinn var þegar ég stökk niður af 8 metra kletti út í ánna.
Þetta var örugglega það stórfenglegasta og furðulegasta sem ég hef gert á mínum árum.
Að sjálfssögðu er það algerlega afbrygðilegt að maður sé að hoppa eitthvað út í á, án þess að vera að bjarga lífi sínu.... Hoppa út í á, bara til að hoppa út í á....
Ég stóð á sentimetra breiðri klettasyllu og það var bara ein tilfinning inni í mér: HRÆÐSLA. En fokkit... ég lét mig hafa það. Hugsaði bara "Feel the force", tók eitt skref áfram og flaug ofan í ánna.

Þegar ég kom upp úr vatninu var bara ein tilfinning í gangi

HAMINGJA

... og ég bara hló eins og glaður api og fannst eins og fyrst ég gat látið mig hafa þetta, þá gæti ég allt.
Svo héldum við bara áfram að sigla niður ána og vorum rosalega happý öll sömul.
.....

Á Sunnudeginum átti ég síðan afmæli og þreif allt og bakaði pönnsur og gerði gumsaðan ofnrétt úr rjómaosti og feta og mozarella og sólþ. tóm. Fjölskyldumeðlimir og Helga vinkona mættu á svæðið og allir voru rosa hressir...nema hvað að ég varð ferlega þreytt í lokin. Örugglega að koma niður af hæinu eftir hoppið út í ána. Afi gaf mér risastóran konfektkassa, Orri gaf mér kaffibolla og mamma hálsmen. Mjög fínt. Helga gaf mér geisladisk. Gaman að fá pakka en hundleiðinlegt að halda afmæli. Ég nenni því ekki næst, hef reyndar ekki nennt því í mörg ár. Finnst skemmtilegast að fara bara út að borða með einni góðri vinkonu eða mömmu eða eitthvað... (mamma er reyndar vinkona líka). Hitt er oftast óþarfa umstang og peningaeyðsla fyrir lítið fjör. Maður er meira eða minna stressaður í eldhúsinu allan tímann að sjá til þess að gestirnir hafi það gott, í manns eigin afmæli. Þetta á frekar að vera eins og í útlöndum þegar vinir og ættingjar halda þetta fyrir mann. En hvað vitum við... við vorum einangruð í 1.800 ár

.....

Á Mánudagsmorgun vaknaði ég og hringdi í Icelandair til að tékka hvort ég væri kannski að fara til NY. Bjóst einhvernvegin ekki við því, en auðvitað reyndi ég. Fyrst sagði hún Nei, það er eiginlega sénslaust af því það er fullt í allar vélar og allt, en ég gafst ekki upp og sagði OK, þá get ég alveg flogið til Boston og húkkað svo til NYC. Henni fannst ég eitthvað fyndin, bað mig um að bíða og sagðist síðan hringja aftur e. klukkutíma eða eitthvað. Ég beið og vissi ekkert hvernig ég átti að vera... svo hringir hún aftur og spjallar eitthvað og lýkur svo samtalinu með því að segja "Þú getur farið upp í Kringlu og sótt miðann, vélin fer kl 16:30"...
Ég fékk náttúrlega vægt sjokk, kyngdi hálfum lítra af munnvatni og hentist svo af stað. Sótti miðann, fór heim, tróð ofan í tösku og rauk svo út á flugvöll. Um kvöldið var ég í NYC og þar er ég enn. Núna í Brooklyn þar sem allir eru svartir og áðan þegar ég fór útí búð að kaupa sódavatn þá var verið að spila Love to love you babe með Donnu Summer í kerfinu. Ég er semsagt komin til Funky Town.

Ég furða mig oft á því hvað líf mitt er og hefur alltaf verið furðulegt. Mér finnst ég ótrúlega heppin með margt og njóta forréttinda á mörgum sviðum. Kannski er það vegna þess að stelpurnar í Kópavogsskóla voru svo duglegar að berja mig þegar ég var lítil og af því ég átti að öllu leiti svo vandræðasama æsku. Ha? Og fái svo bara að hafa það fínt þegar ég er orðin stór... Hvað veit maður? En hvernig sem ég sný því þá finnst mér þetta líf skrítið.


Í kvöld fer ég með Genny í Central Park að horfa á Indverska dansarakonur... hlakka mikið til.