laugardagur, júní 28, 2008

Í guðs bænum hugsaðu lengra!

Ég sat einhverntíma á kaffihúsi þegar hópur fólks kom þrammandi niður Laugaveg í þeim tilgangi að mótmæla því að Kárahnjúkavirkjun yrði reist.
Meirihluti fólksis voru listamenn og áberandi sem slíkir í "öðruvísi" fötum, með skemmtileg kröfugönguskilti. Ég man að ég hugsaði "Þarna fer rómantíkin gegn raunsæinu" -enda var ég upptekin við að kynna mér bókmenntastefnur 20 aldar á þessum tíma.

Í dag ætla margir listamenn að gefa krafta sína í þágu náttúruverndar á Íslandi. Náttúruvernd felst í því að viðhalda henni óbreyttri svo að fólk og dýr fái notið landsins á forsendum náttúrunnar. Eða þannig skil ég þetta. Ísland hefur lengi státað af fallegri, villtri og ósnortinni náttúru og hingað koma flestir ferðamenn einungis í þeim tilgangi að njóta náttúrunnar og hafa gert um árabil.
Reykjavík er ekki beint eftirsóknarverð borg að heimsækja í samanburði við París eða New York, en náttúra Íslands hefur vinninginn yfir þau lönd -og mörg önnur.

Listamennirnir vilja leggja áherslu á að Ísland og ímynd landsins haldist óspillt. Það er til fullt af löndum í heiminum þar sem hvergi er hægt að vera án þess að maður sjái ummerki um viðkomu mannsins einhversstaðar í umhverfinu. Á Íslandi er enn til fullt af stöðum þar sem maður sér hvorki fólk né neitt af því sem frá fólki kemur í margra kílómetra radíus. Kárahnjúkar voru þannig staður, en ekki lengur.

Rómantíkerar vilja óspillta náttúru en raunsæismenn vilja virkja. Þannig virkar þetta á barnamáli. Þannig er stemmingin yfir þessu. En svo einfalt er það samt ekki:

Umhverfismál eru ofarlega á baugi allstaðar í heiminum í dag.
Náttúruleg orka, sem við njótum í svo ríkum mæli hérlendis, er af skornum eða engum skammti í flestöllum löndum jarðar og jarðefniseldsneyti er að renna út eins og sjá má á bensínverði
(þ.e. ef maður tekur mark á þeirri ástæðu).
EU hefur hvatt til framleiðslu umhverfisvænnar orku og nú ætlar Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, að reyna að auka umhverfisvæna orkuframleiðslu þar í landi í 35% úr 4% og til þess ætlar hann að nota vindmyllur.
Við eyjarskeggjar eigum vatn og hita og þar af leiðandi nóg af orku. Ef við vildum gera rafmagn með vindmyllum þá væri það heldur ekki vandamál því nóg er hér af roki. Náttúrulega orkan er ástæða þess að það er hægt að búa á þessu landi (ef ekki væri fyrir heita vatnið þá værum við eflaust öll dauð eða farinn).
Gordon Brown segist vilja búa til stétt "green collar" manna og skapa hundruðir þúsunda starfa með þessu.
Það er pjúra raunsæi.
Engin rómantík.
Það er líka pjúra raunsæi þegar einn stærsti bissnesskarl landsis fer í samstarf með listakonunni (já, útskrifuð úr LHI) Sólveigu Eiríksdóttur á Grænum Kosti. Hann er ekki að vera rómó og hugsa um dýrin sem má ekki drepa. Hann er að hugsa um peninga.
Það er líka raunsæi þegar fólki er ráðlagt að kaupa núna bréf í vistvænum landbúnaði.
Ekki rómantík.



Áhugi raunsæismanna úti í hinum stóra heimi beinist hingað upp á eyjuna af þessari ástæðu og þeir sjá á hvaða gullnámu við liggjum þegar kemur að orku.
Ég á amerískan frænda sem kom hingað í hittifyrra. Hann vinnur hjá orkustofnun í USA og það eina sem hann hafði áhuga á var orkuframleiðsla, metan og rafmagnsbílar. Var eins og æstur krakki. Heimtaði skoðunarferðir og fræðslu en við sátum yfir vöfflunum og sögðum flest bara ööööö.....

Persónulega finnst mér að það eigi að fara mjög mjög mjög varlega í að selja orkuna úr landi og fyrirtæki eins og Alcoa eru ekki málið. Orkan er nýi fiskurinn en við seljum ekki útlendingum bátana og miðin. Við hugsum okkur vel um, kynnum okkur siðferði kaupandans, hugsum fram í tímann, bjóðum upp á atkvæðagreiðslu og tökum SVO ákvörðun. Þannig á þetta að vera.
Einu sinni borðuðum við fisk á hverjum degi og gengum út í búð. Nú borðum við sjaldan fisk og keyrum útum allt. Hlutir breytast á áratugum. Það þarf að hugsa langt fram í tímann. Þetta þarf að vera á forsendum þjóðarinnar. Íslendingar vilja ekki lenda í því sama og maðurinn í sögunni um Skuggann eftir HC Andersen.

Í dag opnaði ný endurgerð Aðalbrautarstöð Kaupmannahafnar. Undanfarin ár hefur verið unnið að þessum breytingum með það í huga að KOMANDI KYNSLÓÐIR fái notið hennar. Það stendur ekki til að breyta henni aftur næstu 100 árin.

Það þarf að hugsa svona hér á Íslandi. Það má ekki byggja álver til að redda einhverju tímabundnu ástandi. Það þarf að hugsa lengra, lengra, lengra, lengra, lengra -en það er ekki gert.

Þetta er kvót í starfsmann úr greiningardeild Glitnis. Taktu eftir síðasta orðinu:

“Segja má að álframleiðsla og annar orkufrekur iðnaður sé leið Íslendinga til að flytja út orku með hliðstæðum hætti og olíuríki selja afurðir sínar á heimsmarkaði, og hátt orkuverð er að öðru óbreyttu jákvætt fyrir arðsemi af slíkum orkuútflutningi. Í því ljósi, og með hliðsjón af því hversu fjárfestingarstig í hagkerfinu virðist nú lækka hratt, má segja að ofangreindar framkvæmdir séu heppilegar og líklegar til þess að vega gegn verulegum samdrætti í innlendri eftirspurn á næstu misserum.”


Á næstu misserum? Er fólk geðveikt?

Talandi um núið og framtíðina...

Með alla þessa orku, hvers vegna er þá ekkert lestarkerfi á Íslandi? Rafmagnslestar. Minnka bílaflota, minna bensíneyðslu, flýta okkur milli staða, droppum innanlandsflugi um helming. Maður gæti tekið lest í Laugardalinn í dag. Tekið lest til Akureyrar.
Við gætum sleppt því að reka einkabíla. Það myndi spara öllum sem þurfa að komast á milli staða gífurlegar upphæðir og vera umhverfisvænt um leið. Eins umhverfisvænt og það gerist.

Einu sinni stóð til að virkja við Gullfoss. Ertu ekki fegin að því var sleppt? Nú er verið að pæla í því að virkja Þjórsá. Væri ekki betra að sleppa því?

Við Íslendingar erum eins og austur-evrópufólk, kvígur að vori sem spranga um í stjórnlausri neyslugleði, unglingar í sjoppu með munninn fullan af kúlum, hvatvísir kjánar sem kunna ekki að hugsa fram í tímann, sem sjá bara það sem gerist í eigin radíus, liðið sem "reddaressu", nærsýna fólkið sem setur fötu undir lekann.

Þannig að... ef þú ert ekki farin að hugsa um umhverfismál núna, þá í guðs bænum byrjaðu á því núna... og hugsaðu LANGT.

Sjáumst í Laugardalnum á eftir! ;)