þriðjudagur, janúar 15, 2008

Blund víma

Ég hef uppgötvað nýja aðferð til að koma sjálfri mér í vímu en hún byggist á því að ýta sem oftast á "blunda" takkann á GSM símanum mínum. Með því að "blunda" næ ég að liggja milli svefns og vöku og búa til undarlega drauma sem ég man betur en þá sem koma til mín í dimmum nætursvefni.

Með blund-aðferðinni rumska ég af draumnum, en þegar ég dett aftur í svefninn þá get ég tekið upp þráðinn líkt og þegar maður byrjar á næstu blaðsíðu í bók. Þetta er mjög skemmtilegt en gæti hugsanlega orðið ávanabindandi sem er ekki gott því eins og allir vita gefur morgunstund, gull í mund. Raðblund gefur hinsvegar ekki gull í mund.

Arnold varð ekki ríkisstjóri með því að blunda. Nei. Hann vaknaði kl. fimm þrjátju og fór út að skokka. Ofblundun ber að varast. Allt er gott í hófi.

Þessi færsla var ekki um sambönd og það verður að hafa það.