Peningafræðsla fyrir sex ára og upp úr
Ég vildi svei mér þá að einhver hefði kennt mér þessa hluti þegar ég var krakki. Ég fékk bara vasapeninga og þeir gufuðu samdægurs upp. Eftir því sem ég varð eldri náði ég þó ágætis stjórn á þessu öllu saman, en það hefði sannarlega sparað mér tíma hefði ég lært grundvallaratriði fjármála á sama tíma og ég lærði að leggja saman tvo og tvo.
Mín vegna hefði peningafræðslan mátt byrja í sex ára bekk og verða flókari með árunum. Peningar eru nefnilega svo ótrúlega stór þáttur í tilveru okkar, en líkt og kynlíf (sem er það líka) eru þeir einnig undarlegt tabú. Fólk vill ekki segja hvað það hefur í laun, það talar ekki um hvað það skuldar mikið... helst talar fólk um peninga ef þeir eru ekki til. Tuðar um að það vanti meiri pening til að borga hitt og þetta en gerir samt lítið til að afla þeirra.
Peningar hafa ákveðin lögmál og allt hefur verðgildi, en samt er eins og þetta tvennt sé fyrir mörgum dulkóðaður kabbalatexti sem ómögulegt er að botna í.
Við Íslendingar virðumst hafa voðalega gaman af peningum. Við viljum selja ál og borga bankastrákum brjálaðar upphæðir fyrir að mæta í vinnuna og vinnusemi... já hún telst sko heldur betur til dyggða hérlendis. Peningar eru eitthvað sem fólk tekur mark á og því spyr ég aftur... Hvers vegna er framtíð Íslands ekki frædd betur um hvernig peningar virka og hvað þeir gera? Slík menntun getur bara skilað hagnaði.
|